
Segir stangveiði henta mjög vel í samkomubanni
Veiðimenn þegar farnir af stað
Þó svo að veturinn hafi enn ekki kvatt okkur og víða allt á kafi í snjó þá hófst stangveiðitímabilið formlega í vikunni. Og veiðimenn, þeir eru þegar farnir af stað. Einn þeirra er Erlendur Steinar Friðriksson, fiskifræðingur.
„Stangveiðimenn eru svo léttgeggjaðir að þeir fara út að veiða þó að ástandið sé svona og þeir sem byrjuðu til dæmis í Eyjafjarðará í fyrradag, þeir voru að veiða þar í einnar gráðu heitu vatni, það sást ekki bakka á milli í hörðustu éljunum og menn þurftu bara að hlaupa upp í bíl á milli kasta til að hlýja sér,“ segir Erlendur.
Finna vel fyrir áhrifum veirunnar
Stangveiðifélög og leigutakar hafa fundið fyrir áhrifum kórónuveirunnar á bókanir í veiði. Erlendur reiknar með að innlendir ferðamenn eigi eftir að vega það upp og flykkjast í árnar í sumar.
„Hluti af veiðimönum eru útlendingar og þeir eru klárlega ekki að koma, allavegana ekki í apríl og maí svo veit maður ekki hvað gerist síðar í sumar með þá. Íslendingarnir hins vegar eru duglegir að kaupa leyfi og það eru að seljast veiðileyfi inn í sumarið núna. Og aftur, það má reikna með því að fólk sé ekki að hlaupa mikið til Ítalíu í sumar eða til útlanda þannig að við hljótum að ferðast meira innanlands.“
Hið fullkomna sport í samkomubanni
Hann segir stangveiði henta mjög vel í því ástandi sem nú ríkir.
„Þetta er hið fullkomna sport fyrir þetta, þú bara kaupir þér veiðileyfi, ferð eitthvert upp í á og þarf engan að hitta nema bara náttúruna.“