Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reykjanesbraut opin en þjóðvegir víða lokaðir og ófærir

06.04.2020 - 00:38
Innlent · færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Búið er að opna Reykjanesbrautina aftur fyrir umferð, en henni var lokað fyrr í kvöld vegna veðurs og ófærðar. Krap er á brautinni og vegfarendur beðnir að haga akstri eftir aðstæðum. Þá er búið að opna þjóðveg 1 undir Hafnarfjalli, sem einnig var lokaður vegna veðurs í kvöld, en þar er þæfingsfærð. Hellisheiði og Þrengsli eru hins vegar enn lokuð, og það eru Holtavörðuheiðin, Vatnsskarðið og Öxnadalsheiðin líka.

Brattabrekka er lokuð og Snæfellsnesvegur að sunnanverðu ásamt Vatnaleið og Fróðárheiði. Flestir vegir á Vestfjörðum og Ströndum eru lokaðir og/eða ófærir og það á einnig við um flestar helstu leiðir á Norður- og Austurlandi, þar á meðal Fjarðarheiðina. Þjóðvegur 1 er lokaður alveg frá Víkurskarði að Jökuldal, samkvæmt vef Vegagerðarinnar. 

Hríðarbylur hefur geisað á landinu síðasta sólarhringinn, en nú er Kári aðeins farinn að slaka á klónni og heldur tekið að sljákka í storminum, sem mun þó hamast á Vestfjörðum og víðar á Norðvesturlandi til morguns. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV