Rektor Háskóla Íslands í Morgunþættinum

06.04.2020 - 06:49
Rektor Háskóla Íslands er meðal gesta í morgunþætti Rásar 1 og Rásar 2 í dag. Við heyrum líka í bæjarstjóranum í Bolungarvík og margt fleira.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var lagður inn á sjúkrahús í gær. Hart hefur verið sótt að stjórninni fyrir dugleysi og margendurtekin loforð um skimun sem hafa ekki ræst. Sigrún Davíðsdóttir í Lundúnum fjallar um stöðuna í Bretlandi.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, verður líka á línunni og fer yfir ástandið fyrir vestan. Íbúar og starfsmenn á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík hafa smitast og fjölmargir eru í sóttkví.

Hárgreiðslustofur eins og fleiri fyrirtæki hafa þurft að loka vegna samkomubannsins. Þær fá engar tekjur en þurfa engu að síður að standa í skilum með ýmislegt, eins og leigu. Fólk í þessum geira bíður eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. Við heyrum í Hörpu Ómarsdóttur, hársnyrtimeistara.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, kemur í þáttinn. Háskóli Íslands hefur þurft að grípa til ýmissa ráðstafana til þess að nám þrettán þúsund nemenda geti haldið áfram og hægt sé að útskrifa nemendur í sumar.

Vera Illugadóttir segir okkur frá þeim löndum heimsins sem eru ennþá veirulaus - eða segjast að minnsta kosti vera það.

Annað kvöld verður umræðuþáttur um Covid-19 hér í sjónvarpinu, og í þetta skipti verður sjónum beint að börnum og ungmennum og þeim gefin tækifæri til að spyrja ráðamenn og sérfræðinga. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir stýrir þættinum og ræðir um hann.

thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi