Hægt að keyra í heimsókn og fá bók hent út um gluggann

Mynd: RÚV / RÚV

Hægt að keyra í heimsókn og fá bók hent út um gluggann

06.04.2020 - 17:18
Gunnar Helgason, rithöfundur og leikari, er einn af peppurum landsliðsins í lestri sem stefnir að því að setja heimsmet í fjölda lesinna mínútna á einum mánuði. Átakið tími til að lesa stendur yfir í apríl og allir geta tekið þátt.

Þátttakendur geta skráð mínúturnar sem þeir lesa á hverjum degi og það skiptir þannig ekki máli hvort maður lesi hratt eða hægt, hvort maður lesi bók eða hlusti á hljóðbók, hvort maður lesi á ensku, íslensku eða öðru tungumáli eða hvort maður sé jafnvel bara að skrifa sjálfur. Allt telst með. Eins og staðan er þegar þessi frétt er skrifuð þá hefur landsliðið í lestri lesið í samtals 1.364.635 mínútur en talan hefur verið í hröðum vexti undanfarinn sólarhring. 

Markmiðið með átakinu er að fá metið skráð í Heimsmetabók Guinnes og geta svo skorað á aðrar þjóðir segir Gunnar og allir geta auðvitað tekið þátt. Það skapar vissulega einhver vandamál að bókasöfn landsins séu lokuð um þessar mundir en hann segir þá ekki þýða neitt annað en að lesa loksins bækurnar sem maður hefur geymt í hillunni lengi. Svo geti maður líka farið í bíltúr til vina og ættingja og látið þá henda til sín vel sótthreinsuðum bókum út um gluggann. 

Meira um Tími til að lesa er að finna á heimasíðu átaksins og á Facebook. 

Gunnar var gestur í Núllstillingunni á RÚV 2 en viðtalið við hann í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Núllstillingin er á dagskrá alla virka daga frá klukkan 14 til 16.