Bretadrottning í Daða-peysu

06.04.2020 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter - RÚV
Susanne Marie Cork, betur þekkt sem söngkonan SuRie, sló í gegn á netinu í gær þegar hún birti mynd af Elisabetu Bretadrottningu í búningi Daða og gagnamagnsins. SuRie keppti fyrir hönd Bretlands í Eurovision fyrir tveimur árum.

Bretadrottning ávarpaði bresku þjóðina í gær og hvatti hana til dáða í baráttunni við kórónuveiruna.

Drottningin hefur aðeins fjórum sinnum áður talað til þjóðarinnar fyrir utan hið hefðbundna jólaávarp. Í ræðunni sagði hún að það kæmu aftur góðir dagar. „Við fáum hitta vini okkar á ný, við fáum að hitta fjölskyldur okkar á ný. Við verðum saman á ný,“ sagði Elísabet og vitnaði þar í lag með Veru Lynn, We'll Meet Again, sem var mjög vinsælt í seinni heimstyrjöldinni.

Söngkonan SuRie sá ávarpið í sjónvarpinu og tók strax eftir því að kjóllinn sem drottningin klæddist var gagnamagns-grænn. Bretar hafa tekið miklu ástfóstri við Daða og Gagnamagnið. Áður en Eurovision-keppninni var aflýst var því spáð að íslenska lagið myndi jafnvel vinna keppnina.

SuRie þekkir Eurovision vel því að hún var fulltrúi Breta í Lissabon árið 2018. Hún var reyndar trufluð í atriði sínu af boðflennu sem kom upp á sviðið og fékk að syngja aftur.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi