Ólympíumeistari sneri aftur í lögregluna

Mynd: La Nueva España / La Nueva España

Ólympíumeistari sneri aftur í lögregluna

05.04.2020 - 09:00
Þegar ákveðið var að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó um eitt ár ákvað Ólympíumeistarinn í kanóróðri að leggja sitt af mörkum til samfélagsins á Spáni. Hann snéri því aftur í sitt gamla starf sem lögreglumaður.

 

Spánverjinn Saúl Craviotto er margfaldur heimsmeistari í kanóróðri og hefur tvisvar orðið Ólympíumeistari, síðast í Ríó fyrir fjórum árum í tveggja manna 200 metra spretti. Hann var í fullum undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Tókýó þegar þeim var frestað vegna kórónuveirunnar. Þá hafði hann samband við sinn gamla vinnuveitenda og óskaði eftir því að veita lögreglunni lið í ástandinu.

„Ég er í sömu sporum og allir aðrir Spánverjar; áhyggjufullur, kvíðinn og stressaður,“ segir Craviotto. En ég er samt bjartsýnn því nú hef ég eitthvað að gera.“

„Mér finnst mikið til fólksins koma því maður finnur bæði fyrir stuðningi og samstarfsvilja. Ég stundaði æfingar þar til að Ólympíuleikunum var frestað og enn stunda ég æfingar, vinn á daginn og æfi á kvöldin. Það má ekki gefa eftir og glata forminu.“

„Það verður að sýna þessu þolinmæði og aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Nú þarf að endurskipuleggja sig og hafa í huga að það er ár í leikana og við höfum það af. Við leggjum hart að okkur þetta árið og færum landi og þjóð og Ólympíuleikunum gleði og ánægju.“ segir Craviotto.