Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mikið tjón í óveðrinu: „Það er allt á kafi í snjó inni“

05.04.2020 - 16:51
Innlent · Hamfarir · Óveður · Suðurland · Ölfus · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Már Guðmundsson - Samsett mynd
„Þegar ég kem og sé inn um dyrnar sé ég að það er allt á kafi í snjó inni. Og þegar ég fer inn um dyrnar sé ég að það skefur bara langt inn í hús.“ Þannig lýsir Már Guðmundsson, garðyrkjumaður í starfsstöð Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi, aðkomunni að gróðurhúsum og garðskála skólans rétt fyrir ofan Hveragerði í morgun. Þar varð mikið tjón í aftakaveðri í morgun. Þak fauk af rúmlega 1.000 fermetra garðskála skólans og rúður brotnuðu í honum og öllum gróðurhúsum á svæðinu.

„Það hafði fokið hluti af þakinu á skálanum og hluti af austurveggnum sem er úr sama plasti og er í þakinu,“ segir Már. „Það er töluvert tjón á húsinu, þakinu og veggnum. Og svo er tjón á gróðri, við erum með ávaxtatré sem eru þarna í blóma. Það eyðileggst allt. Svo er þarna hurð inn í blómaskreytingastofuna, hún hefur fokið upp og brotnað. Og þar er meira og minna allt ónýtt, allt skreytingarefni sem við höfum verið að nota.“

Það hefur verið svakalegt veður þarna?

„Það var ekki stætt. Ég fór á traktor og notaði hann til þess að komast inn í húsið.“

„Ég hef aldrei séð svona stóra skafla“

Már var á staðnum á ellefta tímanum í morgun og segir að ekki hafi verið nokkur möguleiki á að reyna að loka húsunum. 

„Nei það er ekki séns að gera nokkuð fyrr en veður gengur niður.“

Er ennþá vont veður á svæðinu?

„Já.“

Már býr í Hveragerði og þar hafa myndast risastórir skaflar í fannferginu síðan í gær.

„Það er töluverð snjókoma og sums staðar eru mjög stórir skaflar, ég hef aldrei séð svona stóra skafla hérna. Og sumar göturnar eru alveg kolófærar,“ segir Már.