Halda óbreyttri gjaldskrá þrátt fyrir minni þjónustu

04.04.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Strætó bs. hefur ekki í hyggju að lækka verð á áskriftarkortum þrátt fyrir að þjónustan hafi verið skert. Framkvæmdastjóri Strætó segir að tekjur fyrirtækisins hafi hrunið eftir að samkomubannið var sett á.

Strætó greip til þess ráðs í vikunni að fækka ferðum og draga úr þjónustu til að bregðast við Covid-19 faraldrinum. Strætisvagnar aka nú alla daga samkvæmt laugardagsáætlun og þá hefur næturakstri úr miðbænum verið hætt.

Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir að samkomubannið hafi haft mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins og þess vegna hafi verið ákveða að skerða þjónustu.

„Farþegum hefur fækkað um rúmlega 60 prósent frá því samkomubannið var sett á og tekjurnar algjörlega hrundu,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir að fyrirtækið hafi þó ekki í hyggju að lækka verð á áskriftarkortum þrátt fyrir þessa skerðingu.

„Við teljum að þjónustan sé nægilega mikil til þess að standa undir því sem að þetta kostar,“ segir Jóhannes.

Hann vill ekki útiloka frekari niðurskurð hjá fyrirtækinu.

„Við tökum stöðuna daglega. Það er auðvitað minna að gera hjá sumum en við tökum stöðuna daglega. Þetta eru bara þannig tímar núna,“ segir Jóhannes. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi