Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fleiri tölvur og færri hamborgarar

04.04.2020 - 20:15
Mynd með færslu
Eins og mannanafnanefnd gætu margir tengt nafnið Sukki við sukk, eins og til að mynda að háma í sig skyndibita. Mynd: - - pixabay.com
Neyslumynstur þjóðarinnar hefur gjörbreyst frá því kórónuveirunnar varð fyrst vart hér á landi. Sala tölvubúnaðar og raftækja hefur aukist miðað við sama tíma í fyrra og matvöruverslun sömuleiðis en sala veitinga og skyndibita hefur snarminnkað. Þetta kemur fram í gögnum sem Meniga tók saman fyrir fréttastofu og byggjast á ópersónugreinanlegum, innlendum kortafærslum. 

Sala á tölvubúnaði og raftækjum hefur aukist verulega frá því fyrsta smit var greint á Íslandi þann 28. febrúar ef miðað er við sama tíma í fyrra. Næstu tvær vikur á eftir jókst hún um þriðjung frá árinu á undan og um fimmtíu prósent í fyrstu viku samkomubanns. Tugir þúsunda vinna nú heima og hafa tölvuverslanir fundið fyrir mikilli aukningu í sölu tölvubúnaðar af þeim sökum. 

Sjá má greinilega aukningu í sölu í apótekum í vikunni eftir fyrsta smit þegar þjóðin keypti nánast upp allt handspritt sem til var í landinu. Fjórðungi meiri sala var í apótekum miðað við árið á undan fyrstu þrjár vikurnar eftir fyrsta smit.

Kaupum mun meiri mat

Sala matvöru tók kipp strax í vikunni eftir fyrsta smit en rauk upp í vikunni fyrir samkomubann. Þá var hún næstum 50 prósentum meiri en á sama tíma í fyrra. Íslendingar héldu þó áfram að fylla á eldhússkápana því að í vikunni á eftir - þegar samkomubannið tók gildi, var hún einnig meiri en árið áður, nú fjórðungi.

Athyglisvert er að færslur eru þó álíka margar og árið áður - því fólk var að kaupa mun meira í hverjum innkaupum en venjulega. Vikuna eftir að samkomubannið tók gildi fækkaði færslum, þeim skiptum fækkaði um fjórðung sem fólk fór í búðina, þótt salan hafi aukist um rúm tíu prósent. 

Hvergi hefur verið meiri samdráttur en í sölu veitinga og skyndibita. Hún hefur smám saman minnkað frá fyrsta smiti. Dýfan var þó ekki veruleg fyrr en í fyrstu viku eftir samkomubann, þegar salan dróst saman um þriðjung og viku síðar um helming.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir