Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórir hermenn og tugir vígamanna féllu í Níger

04.04.2020 - 01:31
epa03550331 A photograph made available by the French Army Communications Audiovisual office (ECPAD) on 22 January 2013 shows a Malian soldier taking part in operation Serval to push back the Islamist rebels, Diabali, Mali, 19 January 2013. Malian troops
Nokkuð róstusamt hefur verið í Malí síðustu misseri og vígamenn gert nokkrar mannskæðar árásir á ári hverju.  Mynd: EPA
Fjórir nígerskir stjórnarhermenn og tugir vígamanna, sem taldir eru tilheyra íslömskum hryðjuverkasamtökum, féllu í hörðum bardaga í vesturhluta Níger á fimmtudag. Þetta kemur fram í tilkynningu nígerska varnarmálaráðuneytisins, sem birt var í fjölmiðlum í kvöld. Þar segir að sveit stjórnahermanna hafi ráðist á bækistöðvar hryðjuverkamanna í Tillaberi-héraði nærri landamærunum að Malí á fimmtudag.

 

Eftir hörð átök, þar sem 63 hryðjuverkamenn féllu í valinn, lögðu þeir sem eftir lifðu á flótta, segir í tilkynningu ráðuneytisins, og skildu eftir mikið vopnabúr og fjölda vélhjóla.

Mótorhjól bönnuð

Tillaberi-hérað liggur að landamærum hvorutveggja Malí og Búrkína Fasó og hefur notkun og sala mótorhjóla verið bönnuð þar síðan í janúar. Er það gert í viðleitni til að hamla árásum hryðjuverkasveita í héraðinu, sem gjarnan nota slíka farskjóta við ódæðisverk sín. Samkvæmt opinberum tölum drápu vígasveitir öfga-íslamista 174 hermenn í þremur mótorhjólaárásum í desember og janúar síðastliðnum.

Íslamska ríkið lýsti tveimur árásanna á hendur sér. Um 4.000 manns féllu í hryðjuverkaárásum íslamista í Níger, Malí og Búrkína Fasó á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV