
Veitingastaðir verða að fylgja reglum um heimsendan mat
Í tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitinu segir að þessi breytta þjónusta við viðskiptavini kalli á nýjar áskoranir fyrir fyrirtækin. Til að mynda þarf að huga vel að hitastigi og umbúðum en borið hefur á því að matur komi kaldur til viðskiptavina. Heitum mat skal halda við 60°C en kælivörum við 0-4°C. Frystivörur þurfa að vera við -18°C eða lægra. Fyrirtækin verða því að hafa þar til gerðan búnað sem tryggir að hita- eða kælikeðjan rofni ekki þegar veitingarnar fara úr húsi til að draga úr líkum á matarsýkingum.
Einnig hafa borist ábendingar um að veitingar séu heimsendar með einkabílum en slíkt er ekki heimilt. Í einkabifreiðum geta hafa verið dýr, veik börn og jafnvel fólk í sóttkví. Það flokkast því undir almannavarnir að hafa þessa hluti í lagi, segir í tilkynningu eftirlitsins.
„Að lokum er minnt á mikilvægi handþvottar, en það á einnig við um sendla í heimsendingarþjónustu. Nauðsynlegt er að handspritt sé til staðar í öllum flutningstækjum svo sendlar geti sprittað hendur á milli viðskiptavina,“ segir í tilkynningunni.