Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nær 1.200 dóu úr COVID-19 á einum degi í Bandaríkjunum

03.04.2020 - 04:17
epa08339593 A person walks past shuttered store fronts, as all non-essential businesses in the city are closed to help stop the COVID-19 pandemic, in the Bronx, New York, 02 April 2020. According to numbers released today, over 6.6 million Americans applied for unemployment benefits last week as the United States starts to confront the massive economic impact from efforts to stop the spread of the highly-contagious coronavirus.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær 1.200 manns létust af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum frá miðvikudagskvöldi fram á fimmtudagskvöld, samkvæmt samantekt Johns Hopkins háskólans, mun fleiri en nokkur staðar annars staðar á einum sólarhring. Fjöldi látinna nálgast nú 6.000 í Bandaríkjunum, þar sem 1.169 dóu á þessum 24 klukkustundum. Það eru 200 fleiri en létust á svartasta deginum á Ítalíu, hinn 27. mars, þegar 969 dóu þar í landi.

Síðasta sólarhringinn voru jafnframt greind yfir 30.000 ný COVID-19 smit í Bandaríkjunum, sem þýðir að staðfest tilfelli þar eru orðin rúmlega 243.000. Það er nær fjórðungur allra þekktra smita í heiminum, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans.

Ástandið verst í NY - borgarbúar beðnir að hylja andlit sín

Sem fyrr er ástandið verst í New York borg, þar sem yfir 1.500 hafa látið lífið og nær 50.000 manns hafa greinst með sjúkdóminn samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum borgarinnar. Útgöngu- og samkomubann er í gildi í New York þar sem enginn á að vera á ferli að nauðsynjalausu.

Bill Blasio, borgarstjóri, hvatti í gærkvöld borgarbúa til að fara ekki út úr húsi nema með einhvers konar hlífðarbúnað fyrir vitum sér, til að vernda sjálfa sig og aðra - en þó ekki öndunargrímur af betra taginu.

„Svo ég tali skýrt," sagði borgarstjórinn á fréttamannafundi, "þá meina ég eitthvað til að hylja andlitið með. Það getur verið trefill. Það getur verið eitthvað sem þú býrð til heima hjá þér. Það getur verið slæða eða höfuðklútur," sagði Blasio. „Það þarf ekki að vera fullkomin smitvarnagríma. Reyndar, þá viljum við ekki að þið notið grímur eins og bráðaliðarnir okkar nota, eins og heilbrigðisstarfsfólkið okkar notar. Ekki nota þannig grímur," sagði Blasio, en nokkuð hefur borið á skorti á ýmsum nauðsynlegum sjúkragögnum vestra á síðustu dögum, þar á meðal andlitsgrímum.

Búið að taka 1,3 milljónir sýna

Mike Pence, varaforseti, sem leiðir aðgerðastjórn Bandaríkjastjórnar gegn COVID-19, greindi frá því í gærkvöld að búið væri að taka um 1,3 milljónir sýna í leit að smiti. Forsetinn Donald Trump bætti því við að nú væri verið að taka 100.000 sýni á dag, „sem er meira en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, hvort sem miðað er við sjálfan fjöldann eða höfðatölu.“

Hið síðarnefnda er reyndar ekki allskostar rétt, eins og samanburður á Bandaríkjunum og Íslandi leiðir glögglega í ljós. Hér hafa síðustu viku verið tekin á bilinu 800 - 1.600 sýni á dag, samkvæmt upplýsingum á covid.is. Jafnvel þótt horft sé til þeirra daga þar sem sýnatakan er í lægri kantinum, og miðað við 1.000 sýni á dag, gerir það um 275 sýni á hverja 100.000 íbúa. Í Bandaríkjunum gera 100.000 sýni á dag um 30 sýni á hverja 100.000 íbúa. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV