Kreppan verður verri en sú sem hófst árið 2008

03.04.2020 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - rúv
Kórónuveiran veldur mikilli kreppu í öllum heiminum. Hún verður meiri en í hruninu árið 2008, segir Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum. Ríkisstjórnir í mörgum löndum ætla núna að setja stærri hluta af landsframleiðslunni í að bregðast við stöðunni en þær gerðu þá. Ásgeir Brynjar segir að enginn sleppi við áhrif af kreppunni, hvorki ríkir né fátækir.

Gríðarlegur samdráttur hefur þegar orðið um allan heim og Ásgeir segir að það stefni mjög hratt í heimskreppu.

„Efnahagslægð þýðir að það sé samdráttur í landsframleiðslunni í tvo ársfjórðunga,“ sagði Ásgeir Brynjar í Morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun. Það er ekki eins einfalt að útskýra hvenær samdráttur breytist í kreppu. „Það getur annars vegar verið tíminn sem þetta stendur yfir, eða hversu alvarlegt, mikið og snöggt fallið er.

Ásgeir Brynjar segir að engin þjóð sé óhult fyrir þeirri kreppu sem nú vofir yfir.

„Veiran, sem er á bak við þetta fer út um allt. Þannig að það sleppur enginn, sama hversu ríkur eða fátækur hann er.“

Meira atvinnuleysi og hærri fjárframlög frá ríkinu

Ásgeir Brynjar segir að það sé ljóst að það verði meiri kreppa núna en árið 2008.

„Hún er nú þegar orðin, á flestalla mælikvarða, meiri og stærri en alþjóða-fjármálakreppan sem er oft kennd við 2008 en byrjaði 2007 og er samkvæmt mörgum skilgreiningum talin hafa varað til 2009.“ Þetta má sjá með því að mæla hvað ríkisstjórnirnar eru að gera til þess að bregðast við. Í síðustu kreppu juku ríkisstjórnir útgjöld ríkisins um 2% af landsframleiðslu yfir heildina í heiminum. Núna eru útgjöldin þegar komin í 6% og meira á leiðinni á sumum stöðum. Ásgeir Brynjar segir að núna sé því án vafa komin mun meiri kreppa en þá var. Hann bendir líka á að í Bandaríkjunum sé atvinnuleysi nú þegar orðið meira en það varð á tveimur árum í kreppunni 2008.

Hann segir að sumir vonist til þess að kreppan vari ekki lengi að þessu sinni. Þetta sé tímabundið stopp og það dugi að reyna að fleyta fólki og fyrirtækjum yfir þennan skell og svo fari allt að ganga betur aftur. Hann telur þó þetta geti orðið erfiðara og að það taki lengri tíma fyrir hagkerfið að komast aftur á sama stað og það var á áður en faraldurinn byrjaði.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi