Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íbúi í C-19 slær á léttu strengina

03.04.2020 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Ágústa Ragnarsdóttir rekur sögu götuheita í Þorlákshöfn í skemmtilegri færslu á facebook. Tilefnið er að hún býr í C-19 sem eru kannski þeir stafir sem eru einna mest áberandi í dag.

Ágústa segir frá því að Þorlákshöfn hafi byrjað að byggjast upp sem þéttbýliskjarni á sjötta áratugnum. Frumbyggjarnir hafi verið ungir og ákafir og þegar kom að því að nefna göturnar í þessu nýja þorpi, sem í fyrstu voru bara vísir að þremur götum hafi legið beint við að gefa þeim fyrstu stafina í starfrófinu og kalla þær A-, B- og C-götu.

Með stækkandi bæ þurfti ný nöfn

Eftir gosið í Eyjum 1973 risu rúmlega 40 viðlagasjóðshús í Þorlákshöfn að sögn Ágústu. „Þá fannst forráðamönnum kominn tími til að láta af götunöfnum kenndum við bókstafi, þetta væri orðið þorp með þorpum. Fengu þá allar götur þorpsins nýtt nafn og engar götur sem byggðust eftir það kenndar við bókstaf.“

Rakningarnir í Kofid-kofanum

Fyrstu þrjár götur bæjarins kallast hins vegar ennþá A-, B- og C-gata og býr Ágústa sem fyrr segir í C 19. Í samtali við fréttastofu segist hún þó ekki hafa verið búin að tengja þetta við COVID-19, „ekki fyrr en ég náði í appið sem heitir Rakning C-19, þá blasti þetta svona við mér“ segir hún hlæjandi. Hún segist óhrædd við að slá þessu upp í grín og reyna að létta fólki aðeins lundina, öllu gríni fylgi einhver alvara og öfugt.

Ágústa segir að enginn hafi minnst á þetta við hana ennþá en fólk hafi fengið uppnefni af minni ástæðu „og nú er spurning hvort þetta verðir hér eftir COVID-kofinn (The COVID Residence) og við fjöllan Rakningarnir (The Rakning‘s)“.