Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Miðla upplýsingum um veiruna á nokkrum tungumálum

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði kross Íslands
Rauði krossinn sér um að miðla nýjustu upplýsingum um kórónuveirufaraldurinn á hverjum tíma til umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Í samvinnu við Landlæknisembættið hefur Rauði krossinn þýtt helstu leiðbeiningar um það hvernig hægt er að forðast smit og hefur verið settur upp sérstakur vefur, virtualvolunteer.org, þar sem upplýsingum er miðlað. Þetta eru bæði upplýsingar frá Landlækni og Rauða krossinum.

Áður en samkomubann tók gildi voru haldnir upplýsingafundir á nokkrum tungumálum. Nú eru send textaskilaboð, að sögn Áshildar Linnet, teymisstjóra í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum. „Það var frábært að fá covid.is á fleiri tungumál og þá gátum við sent slóðina á fólk eftir því hvaða móðurmál það hefur. Okkur skilst á skjólstæðingum að þeir noti síðuna töluvert,“ segir hún.

Miðla upplýsingum með myndböndum

Þá hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins útbúið myndband, sérsniðið fyrir hælisleitendur. „Það er á ensku, spænsku, arabísku, farsí og rússnesku svo við vonumst til að ná til sem flestra með því. Þar minnum við einnig á að þau geta haft samband við okkur og við getum hringt í fólk með túlki hafi það einhverjar spurningar.“ Hér má sjá myndband á ensku og leiðbeiningar um sóttvarnir vegna veirunnar á öðrum tungumálum. Myndbönd á öðrum tungumálum koma á vefinn á hverri stundu.

Hafa aðgang að heilsugæslunni

Áshildur segir að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi aðgang að allri almennri heilsugæslu auk þess að fá meðferð við öllum lífshættulegum sjúkdómum á meðan á málsmeðferð þeirra hér á landi stendur. Börn njóti svo fullrar heilbrigðisþjónustu á við önnur börn á Íslandi. „Takmarkanir á heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp er svipaður og fyrir aðra núna og eru heilsugæslustöðvarnar að reyna að sinna þjónustu í gegnum síma.“ Í viðbrögðum við Covid hafi það verið tryggt að sé talin þörf á sýnatöku þá komi teymi frá heilsugæslu í búsetuúrræði hælisleitenda til að taka sýni. „Það er gert þar sem þessi hópur getur ekki komið á eigin bíl eins og flestir íbúar og ef grunur er um smit má fólk alls ekki nýta almenningssamgöngur,“ segir Áshildur.

Mynd með færslu
Áshildur Linnet, teymisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Mynd: RUV

 

Tryggja að enginn verði út undan

Hælisleitendur geta leitað til þeirra sem sjá um búsetuúrræði á hverjum stað til að hafa milligöngu um skimun eða aðra læknisþjónustu. Hjá Útlendingastofnun eru það starfsmenn stofnunarinnar sem sjá um það, hjá félagsþjónustunum er fólk með númer hjá sínum félagsráðgjafa sem aðstoðar þegar þarf. „Ef okkur berast beiðnir þá aðstoðum við í samvinnu við fyrrgreinda aðila. Það mikilvæga er að koma upplýsingum á alla um hver getur aðstoðað fólk við að tryggja þjónustu. Okkar hlutverk er að tryggja að enginn verði út undan og að fólk hafi bæði aðgengi að upplýsingum og þjónustu,“ segir Áshildur.

Dómsmálaráðherra tilkynnti í vikunni að umsækjendum um alþjóðlega vernd yrði ekki vísað úr landi meðan ferðatakmarkanir vegna COVID-19 eru í gildi. Mál þeirra sem annars átti að senda til Grikklands og Ítalíu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar verða tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi og lagt verður nýtt mat á aðstæður í þeim löndum sem hafa orðið hvað verst úti í faraldrinum. 

Áshildur segir að það sé gott fyrir fólk að fá sem fyrst upplýsingar um nýja málsmeðferð því að vissa um hvað bíði sé alltaf góð á óvissutímum sem þessum. „Niðurstaða málanna fer svo eftir hverju máli fyrir sig og ómögulegt að meta það á þessari stundu hver loka niðurstaðan verður. Við getum þó gefið okkur að hluti þeirra sem fá nú efnismeðferð hér á landi muni fá vernd vegna ofsókna sem þau sættu í upprunaríki,“ segir hún.