Biles reiknar með erfiðri bið eftir ÓL 2021

epa07918047 Simone Biles of USA reacts after the Floor women's Apparatus Final at the FIG Artistic Gymnastics World Championships in Stuttgart, Germany, 13 October 2019.  EPA-EFE/DANIEL KOPATSCH
 Mynd: EPA

Biles reiknar með erfiðri bið eftir ÓL 2021

02.04.2020 - 09:44
Simone Biles, besta fimleikakona samtímans, stefnir ótrauð á að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó sumarið 2021. Hún reiknar þó með að biðin muni taka mikinn toll andlega.

Biles er ríkjandi heims- og Ólympíumeistari og af mörgum talin besta fimleikakona sögunnar. Hún sagði í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NBC að hún reiknaði ekki með öðru en að þjálfarar hennar myndu sjá til þess að hún yrði í toppformi líkamlega, meira vandamál væri að koma huganum í toppstand ári síðar en reiknað var með. 

 

„Að gíra sig andlega í það að halda áfram í ár í viðbót verður það sem tekur mesta tollinn af mér og öllum, flestu íþróttafólkinu,“ sagði Biles. 

 

„Við þurfum að halda okkur í formi líkamlega og andlega og það verður stór þáttur í þessu, að hlusta á líkamann og hugann,“ bætti hún við.

Biles hafði áður sagt að hún myndi hætta keppni eftir leikana í Tókýó í ár en ætlar að halda kúrs og ljúka ferlinum eftir ár. Hún vann keppni í samanlögðu í Ríó 2016 auk gullverðlauna á stökki, gólfi og liðakeppni. Þá er hún 19-faldur heimsmeistari. 

Eftir 18 mánaða hlé að loknum leikunum 2016 sneri hún aftur árið 2018 með það markmið að ljúka ferlinum á Ólympíuleikunum 2020. Það verður nú 2021 í staðinn.

 

„Ég vissi ekki hvernig mér ætti að líða,“ segir hún um viðbrögð sín þegar tilkynnt var um frestun leikanna.

 

„Ég sat bara og starði út í loftið. Ég grét. En auðvitað er þetta rétt ákvörðun. Við þurfum að tryggja að fólk sé heilbrigt og öruggt,“ sagði Simone Biles við NBC. 

 

 

 

 

 

Tengdar fréttir

Fimleikar

„Gerið það sem er rétt“

Hnotskurn: Besti íþróttamaður allra tíma?

Fimleikar

„Kemur fram einu sinni á hverri mannsævi“