Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þyrla Gæslunnar tvisvar til Vestfjarða á tveimur dögum

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fór í tvö sjúkraflug til Vestfjarða á jafnmörgum dögum, 30. og 31. mars 2020. Þótt ekki væri grunur um COVID-19 smit var leiðbeiningum um smitvarnir fylgt til hins ítrasta.
 Mynd: Landhelgisgæslan
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur farið í tvö sjúkraflug til Vestfjarða það sem af er vikunni. Á mánudag var áhöfnin á TF-EIR kölluð út til að sækja sjúkling á Ísafirði, þar sem veður hamlaði hefðbundnu sjúkraflugi. Þegar til kom reyndist veðrið svo slæmt vestra að ekki var hægt að lenda þyrlunni á flugvellinum og því var gripið til þess ráðs að lenda þyrlunni á þjóðveginum við Arnarnes og senda sjúkrabíl þangað með sjúklinginn, segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Í gær fór þyrlusveitin svo til Patreksfjarðar í sjúkraflug. Gengu báðar flugferðir að óskum. Í hvorugu tilfelli var uppi grunur um COVID-19 smit, segir í tilkynningu Gæslunnar, en engu að síður var öllum leiðbeiningum um smitvarnir fylgt út í ystu æsar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Alls hefur þyrlusveitin sinnt fjórum útköllum á jafnmörgum dögum, því auk sjúkrafluganna tveggja vestur á firði var hún kölluð út í tvígang um helgina vegna vélsleðaslysa. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV