Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast að heimilisofbeldi aukist á tímum veirunnar

01.04.2020 - 06:16
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir
Félagsleg einangrun vegna COVID-19 eykur hættuna hjá þolendum heimilisofbeldis, þar á meðal hjá þunguðum konum, segir í nýlegu myndbandi sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti á Facebook-síðu sinni. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir að hætta á heimilisofbeldi sé meiri núna en á venjulegum tímum.

Líf flestra okkar hefur gjörbreyst með hertum reglum sem gripið hefur verið til vegna útbreiðslu COVID-19. Víða er fólk hvatt til að vera heima og hitta sem fæsta. Í sumum löndum er hreinlega útgöngubann. Þó að það kunni að vera öruggast að vera heima til að minnka líkur á smiti þá er það þannig fyrir þolendur heimilisofbelddis að heimilið getur verið hættulegur staður. 

Merki eru um það í Kína að heimilisofbeldi hafi aukist á meðan COVID-19 faraldurinn var í hámarki þar í landi. Í Rússlandi hafa mannréttindasamtök lýst yfir þungum áhyggjum af þolendum heimilisofbeldis nú á meðan hertar reglur eru í gildi í Moskvu og Pétursborg. Í Frakklandi fékk lögreglan rúmlega 30 prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi eftir að útgöngubann tók gildi. 

Geta síður leitað til annarra

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs, segir að hættan á heimilisofbeldi sé meiri núna en alla jafna og ástæðurnar eru nokkrar. „Til dæmis einangrun á heimili og það að geta síður leitað til annars fólks. Streita er áhættuvaldur þegar kemur að heimilisofbeldi og kannski bara það augljósa; að því meiri tíma sem þú eyðir með manneskjunni sem er kannski hættulegasta manneskjan í lífi þínu, því meiri hætta er á ferðum,“ segir hún.

Ástandið á heimilum geti verið þrúgandi þó að það sé ekki endilega viðstöðulaust líkamlegt heimilisofbeldi. Það geti líka reynt á að vera marga sólarhringa á heimili með manneskju sem þurfi að tippla á tánum í kringum. 

Mynd með færslu
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs. Mynd:

Kvennaathvarfið er opið fyrir konur og börn sem flýja ofbeldi, á meðan á samkomubanni stendur, og síminn þar er opinn allan sólarhringinn. Það hafa ekki fleiri leitað þangað núna en áður. Sigþrúður segir að það sé ekki endilega þannig að konur leiti eftir hjálp þegar ástandið sé sem verst. Á óvissutímum sem þessum geti verið erfiðara að taka ákvörðun um að slíta sambandi eða fara að heiman og brjóta upp sitt venjulega lífsmynstur. 

Í myndbandi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er fólk hvatt til þess að láta lögreglu vita ef það hefur grun um eða veit af heimilisofbeldi, leita aðstoðar hjá fagaðila og að halda góðu sambandi við brotaþola. Sigþrúður tekur undir þetta. „Það er mikilvægt að heyra í fólki sem getur átt erfitt á þessum tímum og láta það vita að við séum til staðar,“ segir hún.

Ráðherra biðlar til almennings

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, sagði í aðsendri grein í Kjarnanum í fyrradag að reynslan sýni að líkur aukist á að börn verði fyrir vanrækslu og ofbeldi við aðstæður sem þessar. „Þetta hefur verið raunin í far­öldrum síð­ustu ára­tuga sem nýlegar upp­lýs­ingar frá Kína og Ítalíu hafa stað­fest,“ segir ráðherrann í greininni.

Ásmundur Einar biðlar til almennings, nágranna og allra ann­arra aðstand­enda að vera með­vit­uð, hafa augun opin og huga sér­stak­lega að börnum sem það heldur að búi við erf­iðar aðstæð­ur. „Öllum ber að til­kynna um aðstæður barns ef áhyggjur vakna. Ekki bíða eftir að aðrir gera það, ekki bíða eftir aðstæður breyt­ist. Hringdu í 112 og til­kynnt­u,“ segir í greininni. Alveg eins og við eigum öll að vera almannavarnir þá eigum við líka öll að vera barnavernd.

Tilkynningum um ofbeldi fjölgaði í útgöngubanni í Kína

COVID-19 faraldurinn hófst í Kína í desember og var útgöngubann víða um landið vikum saman. Kínverski fjölmiðillinn Sixth Tone greinir frá því að heimilisofbeldi hafi aukist í Kína á meðan á útgöngubanninu stóð. Haft er eftir Wan Fei, lögreglumanni á eftirlaunum og stofnanda samtaka gegn heimilisofbeldi í Jingzhou borg í Hubei-héraði, að tilkynningar um heimilisofbeldi hafi verið nær helmingi fleiri eftir að útgöngubann tók gildi. Á lögreglustöð eina í borginni bárust 162 tilkynningar um heimilisofbeldi í febrúar. Í sama mánuði í fyrra voru málin 47.

epa08331577 A woman wearing a protective face mask walks past the banner with the hammer and sickle at an entrance to a residential area, in Wuhan, China, 30 March 2020. Wuhan, the epicenter of the coronavirus outbreak, partly lifted the lockdown allowing people to enter the city after more than two months. Chinese authorities eased the quarantine measures as cases of Covid-19 across China have plummeted, according to Chinese government figures.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Haft er eftir Wan segir að vegna hertra reglna hafi úrræðum fyrir þolendur ofbeldis fækkað. Þá hafi athvörfum fyrir þolendur sums staðar verið lokað til að veita heimilislausum húsaskjól.

Þriðjungs aukning í Frakklandi

Útgöngubann hefur verið í Frakklandi í tvær vikur, til að hamla útbreiðslu veirunnar og fyrstu vikuna fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi um 32 prósent. Í París fjölgaði þeim um 36 prósent. Það gæti þó ekki gefið fyllilega mynd af aukningunni, hefur fjölmiðillinn Euractiv eftir jafnréttisráðherra Frakklands, Marléne Schiappa. Færri símtöl berist í hjálparsíma fyrir þolendur nú en áður. „Þolendur eru í útgöngubanni með ofbeldismönnunum,“ segir hún. Sömu sögu segir Delphine Zoughebi, franskur lögmaður sem sérhæfir sig í ofbeldismálum. Vanalega fær hún fjögur til sjö símtöl frá þolendum á viku en núna hringir enginn. Lögmaðurinn hefur miklar áhyggjur af þolendum sem séu fastir heima dögum, og jafnvel vikum saman með ofbeldismönnum. 

epa08328508 A jogger runs in the deserted street past Notre-Dame Cathedral, in Paris, France, 28 March 2020. France is under lockdown in an attempt to stop the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus causing the Covid-19 disease.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
Fáir eru á ferli í París þessa dagana.  Mynd: EPA-EFE - EPA

Noregur: Tilkynningum um ofbeldi gegn börnum fækkar

Læknar í Noregi hafa lýst yfir áhyggjum að því að ekki sé lengur komið með börn á sjúkrahús sem séu með óútskýrða áverka, að því er Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá. Venjulega er komið með 10 til 15 börn með óútskýrða áverka á barnadeild Háskólasjúkrahússins í Ósló í hverri viku. NRK hefur eftir Cathrine Monrad Hagen, deildarstjóra og barnalækni þar, að undanfarnar tvær vikur hafi aðeins verið komið með eitt barn. Sömu sögu sé að segja á stærstu sjúkrahúsum landsins. Hún segir að það séu oft kennarar sem tilkynni um ofbeldi á börnum en að þegar skólar séu lokaðir berist ekki tilkynningar þaðan. Það sé mikið áhyggjuefni að börn sem búi við heimilisofbeldi fái ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfi og að þegar ekkert sé tilkynnt hverfi mikilvæg sönnunargögn.

Hafa áhyggjur að þolendum í Rússlandi

Í Moskvu og Pétursborg hefur verið gefið frí frá vinnu í viku og fólk á að vera heima við, til að hindra útbreiðslu COVID-19. Aðeins má fara út til að sinna brýnustu nauðsynjum. Í Rússlandi hefur baráttufólk gegn heimilisofbeldi þungar áhyggjur af þolendum við þessar aðstæður. „Þegar öllum verður skipað í sóttkví þá myndast kjöraðstæður fyrir heimilisofbeldi,“ hefur Moscow Times eftir Önnu Rivina, framkvæmdastýru samtakanna Nasilyu nyet, sem berjast gegn heimilisofbeldi. 

Police cars stand guard in an empty Red square, with St. Basil's Cathedral, center, and Kremlin's Spasskaya Tower, right, in Moscow, Russia, Monday, March 30, 2020. Moscow Mayor Sergei Sobyanin ordered all city residents except for those working in essential sectors to stay home starting Monday. Residents are allowed to buy food and medicines at nearby stores and pharmacies and walk their dogs in close vicinity. (AP Photo/Pavel Golovkin)
Götur í Moskvu er fámennar þessa dagana. Myndin er tekin á Rauða torginu. Mynd: AP

Mari Davtyan, annar höfunda frumvarps til verndar þolendum heimilisofbeldis í Rússlandi, segir í samtali við Moscow Times að sóttkví geti haft skaðleg áhrif á félagslegt net kvenna í viðkvæmri stöðu. Þær geti ekki lengur hitt vini og fjölskyldu og séu fastar heima með ofbeldisfullum maka. Reynslan sé sú að konur í ofbeldissamböndum hafi getið leitað til ástvina á meðan makinn sé í vinnunni en nú sé slíkt útilokað.