Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Aðgerðaleysið er það versta sem kemur fyrir fólk“

Mynd: Gísli Valtýsson / Gísli Valtýsson
„Víðir talaði um veirufrían klukkutíma en við tökum eiginlega meiripartinn af deginum í að hugsa um annað,“ segir eldri borgari í Vestmannaeyjum. Annar eldri borgari í Eyjum hefur tekið upp á því að kenna félögum sínum í Félagi eldri borgara að hlaða niður púsl-appi. Báðir telja þeir að Kórónuveirufaraldurinn eigi eftir að breyta heiminum.

Skrifar fjölda smita á félagslyndi íbúa

Nýja kórónuveiran hefur leikið Vestmannaeyjar grátt, 63 smit hafa greinst í eyjum en þar búa um 4400 manns. Eldri borgarar í bænum eru flestir í sjálfsskipaðri eða aðstandendaskipaðri sóttkví en ekki hafa allir í þessum hópi sloppið, nokkrir eru í einangrun að kljást við veiruna. Félagsstarf eldri borgara í Vestmannaeyjum liggur niðri og þjónusta sveitarfélagsins er með breyttu sniði en það er ekki þar með sagt að það sé ekkert við að vera. 

Gísli Valtýsson, gjaldkeri í félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum, segir að líf eldri borgara í Eyjum sé líklega bara svipað og annars staðar. Hann skrifar fjölda smita á bænum á það hvað Vestmannaeyingar séu félagslyndir. „Þeir hópuðust á bikarleikinn og hafa verið mikið fyrir að hittast. Þá eru smitleiðirnar auðvitað auðveldari.“

Já, karlalið ÍBV tryggði sér snemma í marsmánuði bikarmeistaratitil í handbolta, þetta var áður en samkomubann tók gildi, á meðan lífið var enn svo til eðlilegt. Stuðningsmenn flykktust í Laugardalshöll og liðið fagnaði ákaft að leik loknum. Leikurinn er nú talinn hafa átt þátt í því að svo margir smituðust í bænum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Úrslitum fagnað.

Aðgerðaleysi það versta sem kemur fyrir fólk

Það er nóg að gera hjá Gísla. Hann er búinn að vera að dytta að ýmsu innanhúss, lesa og undirbúa garðinn fyrir vorverkin.  „Ég held það sé það versta sem kemur fyrir fólk, þegar það hefur ekkert að gera. Þá koma kvillarnir hver á fætur öðrum, þunglyndi og leiði og allt sem tilheyrir en ef þú hefur nóg að gera þá líður þér bara vel. Það sem maður saknar auðvitað helst eru barnabörnin, við eigum fullt af barnabörnum og getum lítið umgengist þau. Það eru reyndar aðallega börnin okkar sem eru að reyna að forða þeim frá okkur til þess að smita okkur ekki, en maður saknar þeirra. Það er verst.“ Nú eru barnabörnin og aðrir fjölskyldumeðlimir reyndar farnir að koma í heimsókn á tölvuskjáinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Valtýsson
Gísli Valtýsson.

Tala um mál sem lágu í þagnargildi

Þau hjónin tala líka mikið saman þessa dagana, það er nægur tími til þess. Hann segir samtölin rata inn á nýjar brautir, þau ræði jafnvel mál sem hafi legið í hálfgerðu þagnargildi áður. Nú megi ræða þau í friði og ró. 

Gísli segist ekki beinlínis óttasleginn en að hann langi ekkert að veikjast og reyni að forðast það eftir bestu getu. Þau hjónin fara ekki í búð og lítið út. Hann segir mikilvægt að halda huganum uppteknum við annað, Víðir Reynisson hafi mælt fyrir um veirufrían klukkutíma, en hjá þeim hjónum sé gengið lengra. „Við tökum meiripartinn af deginum í að hugsa um eitthvað allt annað og ég held það sé bara mjög góð ráðlegging til allra.“

Fólk endurskoði kapphlaupið

Gísli efast um að heimurinn komist í gegnum þetta ástand án þess að breytast, og hann trúir því að margt gott eigi eftir að koma í kjölfarið. Fólk fari kannski að hugsa hlutina öðruvísi. „Þetta kapphlaup við að vera alltaf í vinnunni og mega ekki vera að því að hugsa um fjölskylduna sína, kannski breytist það þegar við komum út úr þessu. Þetta verður kannski meira virði en það hefur verið. Ef til vill. En þetta er hræðilega skrítinn heimur eins og hann er, að ein lítil leðurblaka í Kína skuli valda þessu öllu saman.“

Bræður hittust í veiðarfæraskúr

Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Í eyjum.

Annar eldri borgari í eyjum, Kristján Valur Óskarsson var eitthvað að bagsa niðri í veiðarfæraskúr með bróður sínum þegar Spegillinn heyrði í honum í dag. Þeir voru að hittast eftir tveggja vikna aðskilnað, bróðirinn nýsloppinn úr sóttkví. „Mig langaði svona að sjá framan í hann, vita hvort hann hefði eitthvað elst við þetta.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján valur óskarsson
Kristján Óskarsson. Mynd: Kristján Óskarsson/Facebook.

Kristján var sjómaður, skipstjóri og útgerðarmaður og segist svo hafa verið svo heppinn að verða eldri borgari, nú leiki hann sér. „Og i þessu ástandi sem er í dag þá láta menn sér ekkert leiðast. Ég er búinn að vera með tölvu- og vídjódellu að taka myndir í mörg, mörg ár og á meðal annars vídjóviðtöl við áttatíu mér eldri manneskjur. Ég er að leika mér að klippa þetta og setja inn á Facebook. Í gær ætlaði ég svo að fara að kenna eldri borgurum í félaginu okkur að fara inn á appstore og ná sér í púsl, ég er kominn með púslforrit sjálfur og dunda mér við það þegar ég er kominn upp í, maður er hættur að snúa sér að konunni orðið, það þýðir ekki þegar maður er orðinn svona gamall, það er eiginlega bara á vorin og haustin,“ gantast Kristján.

  
Heimsækja þau sem engir aðrir heimsækja

Hann segir dæturnar í raun hafa sett sig og frúna í hálfgerða sóttkví fyrir tveimur vikum og að þau séu enn í henni. „En við erum þó að fara og heimsækja eldri borgara sem enginn kemur til, þessi veira getur ekki verið að smita þá sem fara ekki neitt svoleiðis að það hlýtur að vera í lagi, eða við hugsum þannig.“

Hann segir að það hljóti að vera erfiðara að vera einn heima, þau hjónin hafi hvort annað. „Að vera í svona einangrun, eins og hjá okkur hjónunum, það eru margir skíthræddir við hjónabandið en það er búið að reyna svo vel á þetta hjá okkur, við erum búin að vera gift í fimmtíu ár en þetta var verst eftir að maður kom í land, hætti á sjónum. Þegar maður ætlaði að fara að skipta sér af í eldhúsinu og svoleiðis. Það var nú ekki alveg.“

Sem betur fer sé komin reynsla á varanlega samlífið núna. 

Áhyggjufullur

Kristján segist hafa áhyggjur af framtíðinni og áhrifum kórónuveirunnar, ekki bara í tengslum við Ísland eða Vestmannaeyjar heldur heiminn allan. 

Mynd með færslu
Um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni í gærkvöld Mynd: Aðsend - RÚV
Nýlega var gripið til ráðstafana í Vestmannaeyjum vegna veikinda um borð í togaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni.

„Ég er skíthræddur við þetta, ég viðurkenni það alveg. Það er svo margt sem á örugglega eftir að hrynja og eins og hjá mörgum fyrirtækjum. Ég er rosalega þakklátur fyrir að vera hættur fyrirtækjarekstri, ég bara finn til með þessu fólki sem stendur í þessu núna og bara ungu fólki líka, auðvitað er talað um að þetta leggist ekki á ungt fólk en það er nú farið að sýna sig að það gerir það líka.“

Kristján bendir á að nú hafi meira að segja belgískur heimilsköttur sýkst. Það sá hann á Facebook og líka tilvitnun í Nostradamus spámann. Kristján segir að hann virðist hafa spáð fyrir kórónufaraldri árið 2020 á sextándu öld. 

Hringt í alla eldri borgara sem búa einir

Gísli Valtýsson segir að þjónustan við eldri borgara sé til fyrirmyndar, fólk finni það örugglega betur en áður hvað fólkið sem sinnir þjónustunni skiptir miklu máli. Sólrún Gunnarsdóttir, deildarstjóri í öldrunarmálum hjá Vestmannaeyjabæ, segir að það hafi tekist að halda heimaþjónustunni vel gangandi, dagdvölin er rekin með breyttu sniði, fáir mæta á staðinn en starfsfólk fer heim til þeirra sem eru í forgangshópi. Öldrunarþjónustu er í meira mæli sinnt með símtölum og stefnt að því að heyra í sem flestum eldri borgurum í bænum á næstu dögum, sér í lagi þeim sem búa einir. Á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum eru mynd- og hljóðsamtöl ríkjandi leið í samskiptum en aðstandendum gefst líka kostur á að senda bréf og myndir í tölvupósti, sem svo er prentaður út fyrir íbúa.

Níutíu í fjarþjálfun hjá Janusi 

Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia
Á göngu.

Starfsemi félags eldri borgara í bænum liggur að mestu niðri, engin spilakvöld, leikfimi eða söngæfingar en það er ekki þar með sagt að það sé ekkert um að vera. Níutíu eldri borgarar í bænum taka þátt í heilsueflingu Janusar Guðlaugssonar íþróttakennara. Fara í göngutúra og gera fjaræfingar heima í stofu. Janus þjálfar hátt í 600 í samvinnu við sveitarfélög víða um land. Fyrirkomulagi þjálfunarinnar og öllu vinnulagi í kringum hana var gjörbreytt í einni svipan vegna faraldursins og búið að taka í gagnið stúdíó til að taka upp kennslumyndbönd.  Janus segir að fjarþjálfunin gangi vel og aðstandendur sé duglegir að aðstoða þá sem þurfa tæknihjálp.

Allir með fráhvarfseinkenni

Þessa daga og vikur eru Janus og félagar að hringja í þátttakendur, kanna hvernig gengur og hvernig þeim líður. „Þeir taka því afskaplega vel að fá símtal frá okkur, við erum náttúrulega búin að vera í nánum samskiptum við þau og þetta eru svona eiginlega fráhvarfseinkenni hjá okkur líka ekki síður en þeim og gaman að heyra í þeim.“

Hálftímagöngutúr geti skipt sköpum á þessum tímum. „Bæði styrkjum við ónæmiskerfið með reglulegri göngu og svo höldum við liðleikanum og kannski andanum ekkert síður við,“ segir Janus. 

Og Sólrún segir heppilegt hvað það sé stutt í náttúruna, á góðviðrisdögum megi enn sjá eldra fólk á gangi vítt og breitt um Heimaey.

Mynd með færslu
 Mynd:
Vestmannaeyjabær á fallegum degi.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV