Skrifar fjölda smita á félagslyndi íbúa
Nýja kórónuveiran hefur leikið Vestmannaeyjar grátt, 63 smit hafa greinst í eyjum en þar búa um 4400 manns. Eldri borgarar í bænum eru flestir í sjálfsskipaðri eða aðstandendaskipaðri sóttkví en ekki hafa allir í þessum hópi sloppið, nokkrir eru í einangrun að kljást við veiruna. Félagsstarf eldri borgara í Vestmannaeyjum liggur niðri og þjónusta sveitarfélagsins er með breyttu sniði en það er ekki þar með sagt að það sé ekkert við að vera.
Gísli Valtýsson, gjaldkeri í félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum, segir að líf eldri borgara í Eyjum sé líklega bara svipað og annars staðar. Hann skrifar fjölda smita á bænum á það hvað Vestmannaeyingar séu félagslyndir. „Þeir hópuðust á bikarleikinn og hafa verið mikið fyrir að hittast. Þá eru smitleiðirnar auðvitað auðveldari.“
Já, karlalið ÍBV tryggði sér snemma í marsmánuði bikarmeistaratitil í handbolta, þetta var áður en samkomubann tók gildi, á meðan lífið var enn svo til eðlilegt. Stuðningsmenn flykktust í Laugardalshöll og liðið fagnaði ákaft að leik loknum. Leikurinn er nú talinn hafa átt þátt í því að svo margir smituðust í bænum.