Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Varnarmúrarnir: „Við eigum að fá að lifa aðeins lengur“

Mynd: Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir / Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
Iðjuþjálfi aðstoðar Ingibjörgu Guðmundsdóttur, íbúa á Hrafnistu, við að komast í samband við dóttur sína. Ingibjörg er fædd árið 1926, hún er gamall sjúkraliði. Dóttir hennar, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur, var vön að heimsækja hana oft í viku en nú er allt breytt. Þessa dagana eiga þær í samskiptum á netinu, í gegnum myndspjall. Ingibjörg skilur þá ákvörðun stjórnenda heimilisins að reisa varnarvegg um íbúa. Sigurbjörg dóttir hennar vonar innilega að veggurinn haldi.

Saman hafa þær áður gengið í gegnum heimsfaraldur sem hjó skarð í fjölskyldu þeirra en þessi er öðruvísi enda samfélagið gjörbreytt. 

„Sannleikurinn sína skó...“

Þær mæðgur ræða heimsmálin og fara vítt og breitt. Ingibjörg segist ekki hafa miklar áhyggjur af kórónuveirunni, segir að í raun séu mennirnir meiri plága en COVID-19. „Mennirnir sem stjórna heiminum, einræðisherrarnir. Þú sérð það með Bretana núna, að þeir hafa ekki hlífðarbúninga handa hjúkrunarfólki, þeir hafa ekki öndunarvélar,“ segir hún. Dóttir hennar bendir á að þannig sé ástandið líka í New York og þá víkur Ingibjörg að Rússlandsforseta. „Það er náttúrulega ekkert að marka með hann þarna í Rússlandi, hann lýgur nú eins og fjandinn laug í fyrsta sinn, þeir eru ekki að segja fólki sannleikann þessir menn.“ „Nei, nei,“ segir Sigurbjörg og rifjar upp vísukorn. „Lygin flaug um lönd og sjó, langt í burtu héðan, sannleikurinn sína skó sat og batt á meðan.“ 

„Var þarna eins og grár köttur“

Mynd með færslu
Hrafnista. Mynd úr safni. Mynd: Rúv
Á Hrafnistu.

Þær mæðgur gantast þó alvaran sé ekki langt undan. Sigurbjörgu finnst erfitt að geta ekki heimsótt móður sína, nú eru liðnar rúmar þrjár vikur frá því heimsóknarbannið tók gildi. „Þetta eru auðvitað mjög blendnar tilfinningar sem togast á í manni, í fyrsta lagi er ég náttúrulega bara mjög leið yfir því að geta ekki heimsótt hana, farið til hennar og verið þarna eins og grár köttur eins og ég hef alltaf verið síðan hún fór á hjúkrunarheimilið. Á hinn bóginn finnur maður fyrir ákveðnum kvíða að vera í þessari óvissu. Munu þessir varnarmúrar halda, mun stjórnvöldum og starfsfólki takast það að verja þennan viðkvæmasta hóp okkar, ástvini okkar og mér finnst það eiginlega vera öllu yfirsterkara.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurbjörg segir tilfinningarnar gagnvart heimsóknarbanninu blendnar.

Ótrúleg staða hjá öllum

Hún segir að líklega hafi starfsfólk heimilanna aldrei verið undir meira álagi. Það hvíli á herðum þess að verja íbúa og á sama tíma þurfi það að reyna að fylla upp í gatið sem myndast í lífi fólks þegar það fær fólkið sitt ekki lengur í heimsókn. Koma til móts við þörf þess fyrir félagsskap, nærveru og ýmis konar aðstoð. „Þetta er alveg ótrúleg staða sem er uppi, bæði hjá starfsfólkinu, hjá íbúunum og hjá okkur sem stöndum bara utan við gluggann og veifum þeim.“

Sigurbjörg segir starfsfólkið ótrúlega elskulegt og allt af vilja gert. „Maður er kannski að koma með eitthvað og passar auðvitað að allt sé hreint og maður sé með hanska þegar maður er að koma með einhverja sendingu til mömmu, þá koma þau hlaupandi niður og það bara gengur eins og best væri á kosið við þessar aðstæður.“

„Hún er líkari sjálfri sér“

Sigurbjörg sér eftir því að hafa ekki verið búin að kenna mömmu sinni á spjaldtölvu en segir að það hafi verið auðsótt fyrir Ingibjörgu að fá aðgang að spjaldtölvu og aðstoð alltaf þegar þær mæðgur vilja spjalla saman. „Og ég finn að það er mjög mikill munur fyrir mig og líka fyrir mömmu að við sjáum hvor aðra. Mamma talar miklu meira, slær meira á léttari strengi, hendurnar eru frjálsar og hún er miklu líkari sjálfri sér eins og þegar ég er hjá henni heldur en þegar ég er með hana í símanum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Margt eldra fólk er nú að nýta sér fjarsamskiptatækni í fyrsta sinn.

Þetta er ný samskiptaleið og Sigurbjörg segir kominn nýjan blæ á samskiptin. Ingibjörg deili stundum öðru með henni í myndspjallinu en þegar þær hittast augliti til auglitis í raunheimum. „Mamma kemst á alveg ótrúlegt flug þegar við erum að tala saman, ég er búin að fá ótrúlegar sögur, þetta hefur verið svolítið ný upplifun og öðruvísi.“ 

Sefur fyrir ósköpunum

Ingibjörg segir faraldurinn ekki hafa haft mikil áhrif á sig og líf sitt á Hrafnistu. „Ég sef ágætlega fyrir þessu, ég er nefnilega komin á þann aldur að það er bara brottfarartíminn, hvenær verður hann?“ Sigurbjörg spyr hvort hún eigi við sinn eiginn brottfarartíma og Ingibjörg svarar því játandi. 

Hún segist hafa ofan af fyrir sér með því að hlusta á fréttirnar, svo sé hún með ágætar sögur að lesa, nóg af þeim. „Það eru sumir svo skynsamir að þeir hlusta ekki fréttir en ég hef ekkert orðið andvaka yfir þessum ósköpum, eins og þú veist og hefur lesið þá hafa plágur gengið yfir Ísland fyrr.“ Sigurbjörg segir að það hafi ekki komið plágur á borð við þessa, „ekki í okkar lifanda lífi.“

„Nei, þetta kemur kannski með nokkurra áratuga, jafnvel alda millibili,“ segir Ingibjörg. Í hennar huga er ekki svo langt frá því spænska veikin reið yfir árið 1918. Sá tími var greiptur í minni kynslóðarinnar á undan henni. Ingibjörg segir að Íslendingar hafi lengi kunnað að bregðast við svona farsóttum. „Íslendingar þeir eru það klárir, þú sérð að 1806 lögskipa þeir bólusetningu við Kúabólunni.“

Bændur í Alberta í Kanada bera grímur til að smitast ekki (haust 1918)
 Mynd: Wikimedia Commons
Frá tímum spænsku veikinnar, mynd frá Kanada.

„Til fyrirmyndar hvernig tekið er á þessu“

Þegar hér er komið í samtali þeirra mæðgna hringir síminn. Ingibjörg segist fá fleiri símtöl eftir að heimsóknarbannið var sett á. „ Já það hringdi ein vinkona mín, hún ætlaði að koma og mundi ekkert eftir því að ég var lokuð af,“ segir hún og hlær. 

Sigurbjörg spyr hana hvernig heimsóknarbannið virki á hana. „Það virkar ekkert mikið öðruvísi á mig. Ég kemst út stundum einu sinni á dag, það er ágætt. Ég er náttúrulega svo lágt sett í þjóðfélaginu góða mín að ég fæ enga kórónu,“ það er stutt í kaldhæðnina hjá Ingibjörgu. 

„En mamma þegar þú hugsar um það, þetta hefur aldrei gerst áður hjá okkur að heimsóknir hafi verið bannaðar á sjúkrahús og hjúkrunarheimili, hvað finnst þér um það?“ Spyr Sigurbjörg. 

Ingibjörg segir að sér finnist viðbrögðin skiljanleg. „Ég hef ekki lent í svona plágu áður náttúrulega, það er eðlilegt að þau reyni að stoppa þetta, það eru náttúrulega ekki allir sem eru ánægðir með verkin þeirra en mér finnst það alveg til fyrirmyndar hvernig þau eru að taka á þessu og ég fylgist það mikið með að ég veit að þetta á að vera okkur til góðs, við eigum að fá aðeins að lifa lengur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Alma D. Möller, landlæknir. Ingibjörg er ánægð með störf fólksins sem leiðir baráttuna gegn kórónuveirunni á Íslandi.

Ingibjörg vísar þarna til þeirra stofnana sem eru í forsvari; Landlæknisembættisins, Embættis sóttvarnalæknis og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. 

„Þá urðum við fyrir fordómum, nú eru allir saman í þessu“

Sigurbjörg er líka ánægð með framvarðasveitina og glögg á milli stjórnmálanna og stjórnsýslunnar sem hún segir nauðsynleg við þessar kringumstæður. Samfélagið hafi þróast alveg ótrúlega mikið á Íslandi síðastliðin þrjátíu ár. Hún talar af reynslu. Saman hafa þær mæðgur nefnilega áður gengið í gegnum heimsfaraldur, faraldur alnæmis sem hjó skarð í fjölskylduna. Bróðir Sigurbjargar og sonur Ingibjargar, Sigurgeir, lést úr alnæmi árið 1987. Fjallað var um fráfall hans í heimildarþáttaröðinni Svona fólk sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu síðastliðið haust. „Það er svolítið merkilegt að þetta skuli ekkert hafa komið upp í samtölum milli mín og mömmu vegna þess að nú eru liðin þrjátíu ár síðan við vorum með bróður minn og við í rauninni slógum skjaldborg um hann til þess að leyfa honum að deyja í friði, eða í raun og veru deyja í felum. Þá vorum við einhvern veginn þeim megin í þessu ástandi sem þá var, sem einkenndist af svo miklum fordómum og fáfræði og við vorum þau sem urðu fyrir þessum fordómum sem ríktu í samfélaginu þá. Núna þrjátíu árum seinna erum við í allt öðrum kringumstæðum, í fyrsta lagi með mjög mikla þekkingu og frábært skipulag í kringum viðbrögðin við þessu en svo erum við líka bara öll í þessu saman. Þetta er svo ólíkt að ég ætla ekki að lýsa þessu en það er merkilegt að upplifa þetta, svona persónulega, svona smitsjúkdóma sem alla jöfnu eru svo fjarlægir manni. Þetta er eitthvað sem er að gerast úti í heimi en svo allt í einu var alnæmissjúkdómurinn bara kominn inn í stofu til okkar. Svona gerist þetta og það sama er að segja með þessa kórónaveiru sem við erum að kljást við núna.“