Umferð á höfuðborgarsvæðinu dregst saman um 21%

31.03.2020 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman um 21% í mars, sé miðað við sama mánuð í fyrra. Það jafngildir rúmlega 35 þúsund ökutækum á dag. Það er því augljóst að samkomubann og kórónuveirufaraldurinn hefur mikil áhrif á umferð.

Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.

„Afleiðingar faraldursins og samkomubanns eru því að birtast með mjög skýrum hætti í umferðartölum. Þetta er einnig áhugavert út frá tengingu umferðartalna við landsframleiðslu og reynsla undanfarinna ára sýnir töluvert forspárgildi umferðarinnar um landsframleiðsluna. Kann þetta fall í umferð því einnig að vera vísbending um það hversu hratt hagkerfið kólnar,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.

Þá segir að umferð um Hafnarfjarðarveg hafi dregist mest saman, meira en umferð um bæði Reykjanesbraut og Vesturlandsveg. Vegagerðin hafi ekki haldbæra skýringu á því hvers vegna umferð um Hafnarfjarðarveg dregst meira saman en umferð um aðrar stofnæðar höfuðborgarsvæðisins.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi