Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mátti ekki hækka tekjur í framtali knattspyrnumanns

31.03.2020 - 09:15
Mynd með færslu
 Mynd: Christopher Bruno - Wikimedia Commons
Yfirskattanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að hækka tekjur í framtali knattspyrnumanns fyrir árið 2019. Ríkisskattstjóri hækkaði tekjurnar eftir að greiðslum frá félagi leikmannsins var breytt úr verktakagreiðslu í launagreiðslu.

Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að leikmaðurinn hafi fengið rúmar tvær milljónir frá félagi sínu.  Hann óskaði eftir því í júlí á síðasta ári að skattframtali hans yrði breytt þar sem greiðslur frá félaginu hefðu átt að vera skráðar sem laun en ekki verktakagreiðslur. 

Vísaði hann meðal annars til úrskurðar samninga-og félagsskiptanefndar KSÍ sem komst að þeirri niðurstöðu að félaginu hefði borið skylda að greiða skatta og launatengd gjöld af launum hans.  Ríkisskattstjóri tók kæruna til meðferðar og féllst á hana.

Hann ákvað hins vegar að taka mið af samningi leikmannsins við félagið og voru laun leikmannsins því  hækkuð úr tveimur milljónum í þrjár milljónir á framtali hans. Tekju-og útsvarsstofn hækkaði úr 2,6 milljónum í rúmar 4 milljónir og á það var bent að félagið hefði ekki staðið skil á staðgreiðslu vegna þessara launa. Þyrfti leikmaðurinn að sanna að félagið hefði haldið þessari staðgreiðslu eftir.

Leikmaðurinn kærði þessa ákvörðun til yfirskattanefndar og krafðist leiðréttingar á álagningu opinberra gjalda. Félag hans hefði átt að standa skil á þessum greiðslum. 

Yfirskattanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóri hafi við við ákvörðun sína byggt á öðrum upplýsingum en þeim gögnum sem lágu fyrir um launagreiðslur til leikmannsins án þess að færa fyrir því sérstök rök. Þá hafi leikmanninum ekki gefist færi á að tala máli sínu eða koma athugasemdum á framfæri áður en framtalinu var breytt.  Rökstuðningur ríkisskattstjóra hafi því verið ófullnægjandi. Var sú ákvörðun að hækka tekjur leikmannsins í framtali hans því felld úr gildi. 

Nefndin segir hins vegar að launamaður verði ekki leystur undan skattgreiðslu nema hann sanni afdrátt staðgreiðslu af launagreiðslum til sín. Það hafi leikmaðurinn ekki gert og var kröfu hans um leiðréttingu á fjárhæð staðgreiðslu því vísað frá.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV