Lilja Alfreðsdóttir svarar spurningum ungs fólks

Mynd: RÚV / RÚV

Lilja Alfreðsdóttir svarar spurningum ungs fólks

31.03.2020 - 17:56
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var gestur í Núllstillingunni á MenntaRÚV. Þar svaraði hún meðal annars spurningum sem þættinum barst frá ungu fólki sem er óvisst um framtíð skólagöngu sinnar á þessum óvenjulegu tímum.

Lilja segir menntakerfið hafa verið í undirbúningi fyrir það ástand sem stendur nú yfir síðan í febrúar og að skólastjórnendur, kennarar og nemendur hafi staðið sig gífurlega vel eftir að framhalds- og háskólastigið var fært yfir í fjarkennslu og leik- og grunnskólastarf skert. 

Ungu fólki var boðið að senda inn spurningar til Lilju og þættinum bárust nokkrar góðar spurningar sem menntamálaráðherra svaraði:

Af hverju lokuðu grunn- og leikskólar ekki eins og framhalds- og háskólar?
Lilja segir að allar ákvarðanir sem teknar hafa verið hafi verið eftir tillögum sóttvarnalæknis sem styðst að sjálfsögðu við bestu þekkingu sem við höfum. „Þetta er í raun mat sóttvarnarlæknis á ástandinu og það sem við erum að gera nú þegar virðist vera að bera árangur,“ bætir hún við. „Við erum svo að sjá það í tölfræðinni að smit yngri en tíu ára eru ekki eins algeng, ef það væru vísbendingar um slíkt þá væri hann [sóttvarnarlæknir] með aðra tillögu.“

Hvað gerist eftir að veiran hefur náð hápunkti, verður skólinn framlengdur fram í sumarið?
Þetta verður að öllum líkindum mismunandi eftir skólum. Sumir hafa farið alfarið í fjarnám og ná þannig að klára önnina en Lilja segir að það sé verið að skoða lengingu inn í sumarið í skólum sem kenna mikið í verknámi, lengingin sé þá hugsuð til þess að fólk geti náð að útskrifast. „Nemendur eru á fullu að læra og kennarar eru á fullu að kenna og það er vísbending um að á framhaldsskólastiginu verði hægt að klára árið. Sums staðar er líka heilmikið búið af skólaárinu nú þegar.“ Lilja segir að allir þeir sem eru núna í skólakerfinu séu að leggja sig gífurlega fram og hennar tilfinning sé að reynt verði að leita allra leiða til þess að ná að útskrifa þá sem eigi að útskrifast. 

Hvað með þá sem eru með ADHD, lesblindu eða búa við erfiðar aðstæður, er verið að koma til móts við þá?
Lilja segir skólasálfræðinga, sálfræðinga og námsráðgjafa vera meðvitaða um mismunandi aðstöðu nemenda og hvetur alla þá sem þurfa að hafa sambönd við sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa, heyra í vinum sínum og nota þá tækni sem er í boði til þess að vera í sambandi við þá sem geti aðstoðað. „Þetta eru svo ótrúlegir tímar sem við erum að upplifa þannig það er ekkert skrítið að finna fyrir óvissu,“ bætir Lilja við.

Lilja ræddi sömuleiðis um þær aðgerðir sem lagst hefur verið í varðandi tekjutap íþróttafélaga, þær breytingar sem hafa verið gerðar á námsframvindukröfum og afborgunum hjá LÍN og bætur og styrki til námsmanna á vinnumarkaði. Viðtalið við Lilju í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Menntamálaráðherra styður við íþróttafélög