Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eimskip losar sig við tvö skip

31.03.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Eimskip
Eimskip mun í fyrri hluta apríl gera tímabundnar breytingar á gámasiglingakerfi félagsins. Skipum félagsins fækkar um tvö í tengslum við þessar breytingar. Í tilkynningu frá félaginu segir að Goðafossi og Laxfossi verði skilað fyrr en áætlað var. Þannig verði rekstrarkostnaður lækkaður. Eftir breytingarnar verður Eimskip með átta gámaskip.

Þessar breytingar eru hluti af þeim aðgerðum sem félagið ræðst í vegna áhrifa af COVID-19 faraldrinum. Áætlað er að nýja siglingakerfið veiti sambærilega þjónustu og áður frá lykilhöfnum og verða með stysta mögulega flutningstíma frá meginlandi Evrópu, Skandinavíu og Bretlandi til Íslands og Færeyja.

Tímabundin aðgerð

„Nýja siglingakerfið er tímabundin aðgerð í ljósi aðstæðna og ég er ánægður með að við munum viðhalda sterkri inn- og útflutnings þjónustu til og frá Íslandi og Færeyjum. Við sjáum að ferskar sjávarafurðir eru að færast í frystar og gerum m.a. breytingar á kerfinu til að mæta því. Á sama tíma leggjum við áherslu á hraða þjónustu fyrir ferskvöru til Íslands og Færeyja," er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, í tilkynningu.