
42 ára kona lést skömmu eftir útskrift af bráðamóttöku
Landspítalinn vill ekki tjá sig um mál einstakra sjúklinga en samkvæmt heimildum fréttastofu varðar málið 42 ára gamla konu sem lést á föstudaginn, daginn eftir að hún var útskrifuð af bráðamóttöku spítalans.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var konan flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku á fimmtudaginn í síðustu viku, en talið var að hún hefði fengið blóðsýkingu. Konan var orðin máttvana og átti bæði mjög erfitt með gang og með að hreyfa hendur. Hún var send heim í hjólastól, nokkrum klukkustundum eftir komuna á bráðamóttökuna. Hún lést á heimili sínu morguninn eftir, á föstudagsmorgun.
Álagstoppur gæti hafa haft áhrif
„Við gefum ekki upplýsingar um mál einstakra sjúklinga og getum því ekki staðfest þessa frásögn,“ segir í skriflegu svari spítalans við fyrirspurn fréttastofu.
Í svörum spítalans kemur fram að ekkert sé hægt að segja til um það á þessari stundu, hvort atvikið sem kom upp í síðustu viku hafi eitthvað með álag á spítalanum að gera, vegna kórónuveirufaraldursins.
„Álagið á Bráðamóttöku hefur verið með minna móti frá því að Covid-19 faraldurinn hófst, en auðvitað kann að vera að einhver álagstoppur hafi haft áhrif, en það bíður nánari skoðunar,“ segir í svarinu.
Embætti Landlæknis hafði ekki borist tilkynning um atvikið þegar fréttastofa kannaði málið í morgun.