Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dimmumót - Steinunn Sigurðardóttir

Mynd: Forlagið / Forlagið

Dimmumót - Steinunn Sigurðardóttir

28.03.2020 - 11:05

Höfundar

„Ég myndi aldrei geta ort náttúruljóð eins og þau sem ég orti fyrir tuttugu árum eins og ástandið er núna. Það er ekki hægt að vera bara íslenskur náttúruverndarsinni, þú þarft að hugsa um allan heiminn,“ segir Steinunn Sigurðardóttir um Dimmumót, tíundu ljóðabók sína, sem er bók vikunnar á Rás 1.

Dimmumót kom út haustið 2019 þegar skáldið fagnaði hálfrar aldar höfundarafmæli og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ljóðin í bókinni hverfast fyrst og fremst um Vatnajökul og eru einskonar óður til jökulsins sem hopar og bráðnar. Í bókinni má lesa hispurslausa ádeilu á athafnir mannsins og vonbrigði andspænis loftslagsbreytingum eða hamfarahlýnun, orð sem komið er frá sjálfu skáldinu. Steinunn dregur fram ægifagrar náttúrumyndir og lýsingar á hinum ógnarstóra jökli, sem þó verður aðeins lítil táknmynd í stóra samhenginu.

Feimin við sjálfsævisögulega þáttin

Titill bókarinnar kemur úr sveit Steinunnar í Skaftafellssýslu og merkir ljósaskipti en bókin er sannarlega full af ljósaskiptum í mörgum skilningi þess orðs. Hluti ljóðanna eru sjálfsævisögulegar minningar af uppvaxtarárum og alltaf er jökullinn nærri. Steinunn segir að sá hluti bókarinnar hafi komið seint í ferlinu og að hún hafi verið feimin við að bera það á torg. „Af því ég geri þetta aldrei. Ég held að ég hafi aldrei gert þetta í neinni bók, alveg grínlaust. Og nú er þetta allt í einu komið, þetta sjálfsævisögulega ívaf.“

Steinunn viðurkennir að það sé mikilvægt í umræðunni um loftslagsbreytingar að draga inn í hana persónulega frásögn. „Ég held að það er ekki hægt að tala bara hlutlaust um jökulinn og að hann sé að fara.“

Gestir í Bók vikunnar eru Gréta Sigríður Einarsdóttir og Kári Tulinius ljóðskáld. Umsjón hefur Jóhannes Ólafsson. Hlustaðu á þáttinn í heild hér:

Mynd: cc / cc