Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biður um þolinmæði í skertri velferðarþjónustu

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Stór hluti þeirra sem fær velferðarþjónustu í landinu hefur fengið skerta þjónustu síðan neyðarstig var sett á fyrir þremur vikum. Velferðarstjóri segir að það gæti vaxandi spennu og þreytu og biður fólk um að sýna þolinmæði.

Klettaskóli opnar í vikunni

Allir nemendur og starfsmenn Klettaskóla fóru í sóttkví 17. mars eftir að starfsmaður greindist með kórónuveirusmit. Skólinn opnar aftur í næstu viku. 

„Það er bara mjög gleðilegt að bæði Klettaskóli og frístundin þar eiga að taka til starfa í næstu viku. Þannig að það mun létta á mörgum fjölskyldum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.  

Áhyggjur af íbúðakjörnum og sambýlum

Regína var fulltrúi viðbragðsteymis félags- og barnamálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga, þegar velferðarþjónustan var tekin fyrir á upplýsingafundi almannavarna og sóttvarnalæknis í dag. 

„Það er stór hluti af fólki sem fær velferðarþjónustu er að fá skerta þjónustu því miður.“

Svona hefur þetta verið síðan 6. mars. Starfsfólk í velferðarþjónustu hringir nú í fjölmarga skjólstæðinga og athugar líðan. Regína hvetur fólk til að hringja í ættingja eða nágranna sem eru einir og eiga fáa að og minnir svo á hjálparsíma Rauða krossins 1717. 

„Kannski helsta áhyggjuefnið okkar hefur verið gríðarlegt álag á t.d. forstöðumenn, sem eru í íbúðakjörnum og sambýlum.“

Ekki er lengur hefðbundin rútína en íbúarnir þurfi einmitt á henni að halda.

Finnur fyrir spennu og þreytu

Þú sagðir áðan hérna inni að fólk hafi verið þolinmótt fyrst, finnst þér það vera að breytast? 

„Fólk sýndi skilning, aðstandendur og bara allir, en það er vaxandi þreyta og það er spenna, við finnum fyrir því, erum á vaktinni, við biðjum bara fólk um að sýna þolinmæði. Við ætlum að standa þessa vakt og vaka yfir velferð landsmanna.“