Úr ebólu í kórónaveiru

23.03.2020 - 16:58
Mynd: ÞÓL / RÚV
„Það er skelfilegt að hugsa til þess að hér verði ofsalegur faraldur. Vegna þess að Evrópa virðist eiga nóg með sig þá er ég hræddur um að Afríka gleymist,“ segir Jón Eggert Víðisson, sem starfar sem sendifulltrúi hjá samtökunum Læknum án Landamæra í Austur Kongó „Það væri skelfilegt ef allir gleymdu Afríku, einu sinni enn.“

Jón Eggert býr og starfar í borginni Góma sem liggur við landamærin hjá Rúanda. Helstu verkefni samtakanna Lækna án Landamæra í landinu hafa tengst Ebólu faraldri sem hefur herjað á landið síðustu ár. Ebólan virðist hins vegar vera á undanhaldi og hafa hjálparsamtök í landinu því smátt og smátt dregið saman seglinn síðustu misserin. „Það var búið að lýsa því yfir fyrir svona þremur vikum að ebóla væri ekki til staðar í bili í Austur Kongó,“ segir Jón Eggert. „Við vorum í lokunarfasa, vorum með þrjú ebólu verkefni í þremur héruðum og vorum að loka þeim. Ég er í stjórnstöð í Góma þar sem við styðjum við þessi verkefni. Allir voru búnir að draga mjög úr ebólu viðbúnaði. En við vorum semsagt ekki farin, við vorum á leiðinni að fara.“

Svipuð viðbrögð og við ebólu

Fyrir tíu dögum bárust hins vegar fréttir um að ný veira væri búin að stinga sér niður í landinu; kórónaveiran. „Þá fundust sjö tilfelli í höfuðborginni og nágrannalandið Rúanda fór að setja á allskonar takmarkanir,“ segir Jón Eggert. Hlutirnir hafa gerst mjög hratt, búið er að loka landamærum og lítið er um samgöngur og flug. Að öðru leiti eru viðbrögðin svipuð og voru í gangi vegna ebólunnar. „Til dæmis þurfti að spritta hendur ef maður fór niður á höfn og það voru notaðar hitabyssur til að mæla hita í öllum sem fóru yfir ákveðnar línur í borginni. Það var búið að leggja þetta til hliðar en þetta var allt aftur tekið upp, núna til varnar kórónuveirunni í stað ebólu, segir Jón Eggert. „Kóróna veiran er hins vegar miklu meira smitandi en ebólan,“ bendir hann á.

„Heilbrigðisþjónustan hér er alveg ofboðslega léleg, þannig að hún er ekki að fara að taka á móti ofboðslega mörgum veikum einstaklingum í einu, það er gefið mál. Ég þori varla að hugsa um ef það kæmi faraldur hér eins og hefur geysað á Ítalíu. Það væri bara stórslys. En á hinn bóginn, það sem gefur mér von, er að þjóðin er ung, miklu yngri en Ítalir. Kannski hjálpar það í baráttunni við kórónavírusin hér niður frá. Við vitum í raun ekkert hvað gerist,“ segir hann og bendir á að ekki bæti úr skák að ógnarlangan tíma virðist taka að greina sýni sem eru tekin.

Hann segir heimafólk meðvitað um hversu smitandi kórónavírusinn er. Veiran er gjarnan tengd Vesturlöndum og hann segist finna það á eigin skinni úti á götu, hann fær augnaráð og heyrir muldrað um kóróna. „Það er alveg þannig að viðhorfið hefur breyst gagnvart hvíta fólkinu hérna, okkur Evrópubúunum,“ segir hann.  Hann og samstarfsfólk hans hafa nú birgt sig upp af vistum fyrir allavegana þrjár vikur. Jón Eggert bendir á að það sé hins vegar ekki eitthvað sem hinn almenni Kongóbúi geti gert. Enginn hafi peninga til að kaupa mat til lengri tíma – og hann óttast mjög að verð á matvælum hækki gríðarlega vegna landamæralokana. Og nú er búið að setja á samkomubann í landinu. „Því er fylgt,“ segir Jón Eggert. „Þrátt fyrir að eftirfylgni með lögum hér sé  ekki góð, þeir taka þetta bara alvarlegar en þeim er sagt að gera. Sem er svipað og ég heyri að er gert heima.“

Valdi að vera eftir

Síðustu daga hafa fjölmargir erlendir ríkisborgarar sem dvalið hafa í landinu farið til síns heima, og sendifulltrúar hjálparsamtaka sömuleiðis. Kórónavírusinn ýtti mörgum af stað. En afhverju er Jón Eggert þarna enn þá?

 „Þetta er erfið spurning. Mamma hefur spurt mig að þessu nokkrum sinnum,“ segir hann hlæjandi. „Læknar án landamæra eru með fullt af verkefnum um alla Kongó og við drögum örugglega fullt úr starfseminni, en við lokum ekki, það er ekki á teikniborðinu enn þá, þannig að einhverjir verða að vera hérna og núna í síðustu viku þegar flugvallarlokanir skullu á af fullum krafti lokuðust margir sendifulltrúar úti, þannig að það vantar sendifulltrúa hingað og þangað um Kongó. Ég er maður á besta aldri, að detta í fertug og ég er hraustur og hreinlega besti kosturinn til að vera hérna. Það er bara þannig, þannig að ég er ekki á leið heim strax, en það gæti breyst. Ástandið breytist dag frá degi.“

En þú kæmist þá hvort eð er ekkert, fyrst það er búið að loka öllum samgöngum og flugum frá landinu?

„Já, og það líka, það er rétt. Við náðum að senda nokkra fulltrúa frá okkur á föstudaginn en nokkrir lokuðust inni. Þannig að núna erum við að finna leiðir til að koma þeim sem vilja komast í burtu út úr landinu. Það er ekki búið að finna leiðirnar enn þá en við munum finna þær. Það er svo mikið af sendifulltrúum hérna frá allskonar stofnunum þannig að ef það eru margir sem eru strand þá held ég að það verði sett upp leiguflugvélar eða eitthvað.“

Finnurðu fyrir kvíða?

„Hér er enn fjölmennt sendifulltrúa samfélag. Það gefur mér öryggi, að vita að við séum ekki ein í þessu. En ég hef oft verið rólegri. Svo breytast skilaboðin frá minni skrifstofu dag frá degi. Það gæti verið að við verðum öll send heim í þessari viku. En þangað til treysti ég bara á að þeir sem stjórna viti hvað þeir eru að gera.“

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi