Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Háteigsskóla lokað vegna þriggja Covid-19 smita

17.03.2020 - 10:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír starfsmenn Háteigsskóla hafa verið greindir með Covid-19, tveir kennarar og einn starfsmaður félagsmiðstöðvar. Fjöldi nemenda og starfsmanna eru í sóttkví. Þetta staðfestir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.

Starfsmaður í félagsmiðstöð skólans greindist í fyrradag og í kjölfarið voru 15 nemendur settir í sóttkví. Í gær greindist kennari við skólann með veiruna og voru 26 nemendur og 8 starfsmenn settir í sóttkví, meðal annars skólastjórinn. Síðar sama dag greindist svo annað smit hjá kennara og þá voru 36 nemendur og 5 starfsmenn látnir fara í sóttkví. Í kjölfarið var ákveðið að loka skólanum. 

Bjarni gerir ráð fyrir að skólinn verði lokaður næstu vikurnar.

„Þetta er fljótt að gerast og þegar þetta eru orðnir svona margir þá eru smitin orðin órekjanleg. Við gerum ráð fyrir að lokunin vari út samkomubannið.“

Í tilkynningu til foreldra segir að skólayfirvöld vinni náið með smitsjúkdómalækni og Almannavörnum og að ákvörðun um framhaldið verði tekin að þeirra ráðleggingum síðar í dag.