Talíbanar með pálmann í höndunum

epaselect epa05298071 An internally displaced Afghan girl is silhoutted against the Sun, outside her temporary shelter in Herat, Afghanistan, 10 May 2016. Hundreds of thousands of internally displaced persons from Ghor, Faryab and Baghdis provinces have
Barn á flótta í Afganistan. Mynd úr safni. Mynd: EPA
Í lok síðasta mánuðar var sögulegt samkomulag undirritað milli Bandaríkjastjórnar og Talíbana, sem kveður á um að herlið Bandaríkjanna og Nató yfirgefi landið eftir rúmlega átján ára viðveru. Er friður í augsýn, eða eru Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra að ganga burt frá rjúkandi rústum? Í tuttgasta og áttunda þætti Heimskviðna, er fjallað um nýjustu tíðindin frá þessu stríðshrjáða landi.

Úr öskunni í eldinn

Í kringum aldamótin síðustu minntu aðstæður í Afganistan um margt á hryllingsmynd. Fólk var tekið af lífi, opinberlega, á degi hverjum. Konum var meinað sjást opinberlega, og þær máttu ekki ganga í skóla. Karlmenn þurftu að skarta síðu skeggi. Sjónvarp var bannað og tónlist sömuleiðis. Að fara í bíó, gleymdu því.  

Svona var lífið í Íslamska furstadæminu Afganistan, sem var þó skammlíft og varði aðeins frá 1996 til 2001. Afganistan var á þessum tíma stjórnað af Talíbönum, bókstafstrúarmönnum úr röðum súnní-múslíma. Þeir tröðkuðu á mannréttindum Afgana, en var einnig gefið að sök að hafa gert Afganistan að skálkaskjóli hryðjuverkasamtaka. Og það, var fyrst og fremst ástæðan fyrir því að Talíbönum var steypt af stóli í innrás Bandaríkjahers haustið 2001.

En Talíbanar fóru ekki langt, og nú er svo komið að þeir virðast sterkari en þeir hafa nokkurn tímann verið á þessari öld. Og Bandaríkjaher, sem hefur staðið í átökum við talíbana í linnulausu stríði í landinu undanfarin átján ár - er á leiðinni burt. 

Eftir stendur Afganistan með sína lýðræðislega kjörnu ríkisstjórn. En líka sína Talíbana, sem eins og atburðir síðustu vikna sýna, virðast ráða ansi miklu í þessu stríðshrjáða landi.

U.S. peace envoy Zalmay Khalilzad, left, and Mullah Abdul Ghani Baradar, the Taliban group's top political leader sign a peace agreement between Taliban and U.S. officials in Doha, Qatar, Saturday, Feb. 29, 2020. The United States is poised to sign a peace agreement with Taliban militants on Saturday aimed at bringing an end to 18 years of bloodshed in Afghanistan and allowing U.S. troops to return home from America's longest war. (AP Photo/Hussein Sayed)
 Mynd: APimages
Við undirritun samkomulagsins í Doha í lok febrúar.

Tímamót í Doha

Í lok síðasta mánaðar var sögulegt samkomulag undirritað í Doha í Katar. Við borðið sátu fulltrúar Bandaríkjastjórnar annars vegar, og Talíbana hins vegar. Samkomulagið er ávöxtur tæplega tveggja ára viðræðna Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins, NATÓ, við Talíbana um að koma á friði í landi þar sem linnulaus átök hafa geisað frá því Bandaríkjamenn réðust þar inn í október 2001. Hafa ber í huga, að fulltrúar frá ríkisstjórn Afganistans, skrifuðu ekki undir samkomulagið. Í því er kveðið á um að Bandaríkin og NATÓ dragi allt herlið sitt út úr landinu á næstu fjórtán mánuðum. En það er gert með skilyrðum, eins og Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Kabúl eftir að samkomulagið var undirritað.

Stórt skref hefur verið stigið í átt að friði í Afganistan, sagði Esper, en bætti því við að samkomulagið væri skilyrðum háð. Talíbanar verði að standa við sinn hluta samningsins. 

„Í grundvallaratriðum snýst samkomulagið um það að Talíbanar leyfi Al-Kaída, og öðrum hryðjuverkasamtökum, ekki að nota Afganistan sem skjólshús til að skipuleggja alþjóðlegar hryðjuverkaárásir, gegn því að Bandaríkjamenn og þeirra bandalagsþjóðir eða NATÓ-þjóðirnar, fari með sitt herlið úr landinu,“ segir Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur.

Hún var eitt ár í Afganistan á vegum NATÓ, sem borgaralegur sérfræðingur frá Íslandi, fyrir Nató og Bandaríkjaher. Brynja bendir hér á að sá hluti sem snýr að Talíbönum sé fyrst og fremst sá, að þeir haldi ekki hlífiskildi yfir hryðjuverkasamtökum á borð við Al-Kaída. Auk þess, eiga Talíbanar að hætta öllum meiri háttar árásum í landinu, en það er alls ekki víst að það gerist, þó svo að undir samkomulag þess efnis hafi verið skrifað. 

„Það sem þarf að hafa í huga, er að „talíbanið“ er ekki fullkomlega miðstýrt batterí. Þó svo að það sé búið að skrifa undir samning milli Talíbana og Bandaríkjanna þá er ekki þar með sagt að öllu ofbeldi linni einn, tveir og tíu. Í þessu samkomulegi er tilgreint hvers konar árásir, eru of mikið,“ segir Brynja. Undir þau orð tók Mark Milley, hershöfðingi Bandaríkjamanna í Afganistan. Ekki hrósa happi of snemma, sagði hann. Enn væri langur vegur fram undan.

epa08062757 Italian soldiers of NATO Resolute Support Mission attend a change of regional command ceremony in Herat, Afghanistan, 11 December 2019. Italian Brigadier General Enrico Bardvani took over the command for the next six months.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ítalskir hermenn á vegum NATÓ á heræfingu í borginni Herat í Afganistan í desember á síðasta ári.

Stjórnvöld í Afganistan skrifuðu ekki undir

Standi Talibanar við þetta, halda hermenn Bandaríkjanna og NATÓ á brott. Og þar með er endir bundinn á þessi nærri tveggja áratuga átök

Einfalt mál, ekki satt? Það er ekki alveg svo. Það er margt skrýtið í kýrhausnum segir máltækið, og þetta samkomulag virðist við fyrstu sýn nokkuð sérstakt, þar sem í Afganistan er jú lýðræðislega kjörin ríkisstjórn. Ríkisstjórn, sem kom ekki að samkomulaginu í Doha. 

„Það sem er svo skrýtið við þetta samkomulag, er að þarna eru utanaðkomandi aðilar, Bandaríkin og NATÓ, að semja fyrir hönd Afganistan, sem er fullvalda ríki. Þau semja við uppreisnarhóp í landinu, sem var við stjórn áður en Bandaríkin ráðast þarna inn mánuði eftir árásirnar á tvíburaturnanna árið 2001,“ segir Brynja Huld.

Völd Talíbana eru greinilega enn þá umtalsverð í Afganistan, tæpum nítján árum eftir að Bandaríkjaher réðst með offorsi inn í landið og kom ógnarstjórn þeirra frá völdum. 

Mynd með færslu
Afganskir Talibanar. Mynd:
Talíbanar í Afganistan.

Hverjir eru Talíbanar?

Talíban merkir í raun nemandi eða nemendur á pasthó, tungumáli sem er talað í suðurhluta Afganistans. Þeir sem í daglegu tali eru kallaðir Talíbanar, eru þó ekki nemendur í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur íslamskur súnní-bókstafstrúarhópur sem komst til valda í Afganistan árið 1996 eftir blóðuga borgarastyrjöld í landinu sem á rætur sínar að rekja allt aftur innrásar Sovétmanna inn í landið í lok árs 1979.

„Fæðingastaður talíbansins er í héraði í suðurhluta Afganistan sem heitir Kandahar, sem er ekki fyrir tilvijun eitt af íhaldssamari svæðunum í Afganistan. Þar býr þjóðflokkurinn Phastu, og það er það þjóðarbrot sem eru með hvað íhaldssamasta sýn á hlutverk kvenna. Pasthu-stelpur mega ekki fara einar út án þess að vera í fylgjd karlmanns, hvort sem það er eiginmaður eða annar skyldur karlmaður,“ segir Brynja Huld.

Undir stjórn Múlla Ómars nutu Talíbanar mikils fylgis í landinu og árið 1996 stofnuðu þeir Íslamska furstadæmið Afganistan, og gerðu Kandahar að höfuðborg landsins. Þeir réðu yfir meirihluta landsins, allt að 90% allt til þar til Bandaríkjaher réðst inn í landið haustið 2001. 

Á fimm ára valdatíð sinni komu þeir á sannkallaðri ógnarstjórn undir sjaría-lögum, og eins og fyrr segir voru opinberar aftökur og limlestingar daglegt brauð. Troðið var á réttindum kvenna og fólki gert að lifa eftir harðlínubókstafstúlkun á Kóraninum. 

Stríðið endalausa í Afganistan

En það var þó ekki ástæðan fyrir því að Bandaríkin réðust inn í landið, ó nei. Sú afdrifaríka ákvörðun er bein afleiðing árásarinnar á tvíburaturnana í New York þann ellefta september sama ár. Ákvörðunin var byggð á þeim rökum og réttlætt með því að Talíbanar héldu hlífiskildi yfir Osama bin Laden og öðrum forvígismönnum hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída, sem lýstu yfir ábyrgð á árásinni á tvíburaturnanna.

Í desember 2001 var Hamid Karzai skipaður yfir bráðabirgðaríkisstjórn Afganistans. Hann var svo kosinn forseti landsins í lýðræðislegum kosningum árið 2004. 

Við fyrstu sýn virtist sem Bandaríkjamönnum hefði tekist að kollvarpa Talíbönum, en helstu leiðtogar þeirra, meðal annars Múlla Ómar, náðu þó að komast undan. Og þrátt fyrir herlið Bandaríkjanna og Nató í landinu, náðu Talíbanar að styrkja sig að nýju og hafa allt frá því Bandaríkjamenn réðust inn í landið staðið í stríði við hermenn Bandaríkjanna og NATÓ-ríkjanna, og afganska herinn. Allt frá árinu 2006 hafa ítök Talíbana í landinu aukist, og ofbeldið og stríðsátökin sökuleiðis. Þegar Bandaríkjaher réð Osama bin Laden af dögum í Abbotabad í Pakistan í maí 2011, breytti það litlu um stöðu mála í Afganistan. 

Talið er að yfir sjötíu þúsund hermenn og verktakar á vegum Bandaríkjahers, NATÓ og að mestu leyti, afganska hersins, hafi látið lífið í stríðinu. Svipað mannfall er hjá Talíbönum, og þá liggja tæplega fjörutíu þúsund almennir borgarar í valnum.

Mörg stríð í einu stríði

Þessir blóðugu, bráðum tveir, áratugir, hafa sömuleiðis kostað Bandaríkjastjórn og NATÓ upphæðir sem hlaupa á hundruðum milljarða bandaríkjadollara. En hvers vegna gekk ráðagerð Bandaríkjamanna ekki upp, hvers vegna gekk svo illa að koma á friði í Afganistan? Brynja Huld segir eina ástæðuna fyrir því vera þá að ákvörðunin um að ráðast inn í landið í upphafi hafi verið tekin í miklum flýti, og engin langtímahugsun, önnur en að koma koma Talíbönum frá völdum og þar með gera hryðjuverkasamtökin Al-Kaída óstarfhæf, hafi verið lögð til grundvallar. 

„Það var í rauninni ekkert plan. Það er oft talað um að þetta sé stríð sem sé búið að vara í átján til nítján ár, en þetta eru mörg eins árs stríð, eða hálfs árs stríð. Það er alltaf verið að breyta um stefnur, hvort sem það eru Bandaríkin eða NATÓ. Það hefur verið skipt um yfirmenn, um forseta í Bandaríkjunum, framkvæmdastjórn NATÓ. Það var ekki nein skýr stefna þegar farið var inn í landið, sem gerir það að verkum að það er alltaf verið að sveigja af leið,“ segir Brynja Huld. 

epa06755671 Afghan security officials inspects the scene of a bomb explosion in Kandahar, Afghanistan, 22 May 2018. At least 16 people were killed and another 38 wounded when a container full of explosives blew up even as security forces were trying to
Frá vettvangi sprengingarinnar í Kandahar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stríðið í Afganistan hefur staðið í tæp nítján ár. Mynd frá Kandahar.

Hugmyndafræðilegar, menningarlegar og samfélagslegar ástæður

Það átti semsagt að uppræta Al-Kaída, en það gekk ekki einu sinni. Samtökin lifa enn góðu lífi, hvort sem þau kunna að vera starfrækt frá Afganistan eða ekki. Og þrátt fyrir að hafa haldið afgönsku þjóðinni í heljargreipum í hartnær fimm ár undir lok síðustu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu, virðast þeir eiga sínu fylgi að fagna í landinu. Fyrir því eru ýmsar ástæður. 

„Það er gífurleg fátækt í Afganistan, landið er strjábýlt og það eru margir sem búa á landsbyggðinni sem líta ekki á ríkisstjórnina í Kabúl sem yfirvald yfir sér. Talíbanar eru talsvert sterkari úti á landi heldur en í Kabúl, og fullt af fólki hefur gengið til liðs við þá. Margir út af hugmyndafræðilegum ástæðum, en líka út af fátækt,“ segir Brynja Huld. Hún segir að bæði Afganistan og Írak sé fátt sem þjappi fólki jafn vel saman eins og þegar erlendur aðili kemur inn í landið og ætlar að segja þér hvernig þú eigir að gera hlutina. Þá segir Brynja að vanþekking Bandaríkjanna á afgönsku samfélagi og sögu landsins, hafi komið í bakið á þeim. Þau hafi ætlað sér að losa sig við óvin, en ekki gert sér grein fyrir því að þau sjálf gætu verið óvinurinn í augum fólksins. 

Segja má því með sanni að innrásin í Afganistan hafi mistekist hrapallega; stríðið í landinu er það lengsta í sögu Bandaríkjanna. En því er lokið nú, eða hvað?

epaselect epa07875624 Afghanistan president Ashraf Ghani (C) poses for a photograph at a polling station during the presidential elections, in Kabul, Afghanistan, 28 September 2019. The Afghan presidential elections will take place nationwide on 28 September amidst a maximum security alert over the looming threat of violence by Taliban insurgency. A national peace and a stronger economy are Afghan voters' main concerns as the country heads to the polls for its fourth presidential election since the fall of the Taliban regime in 2001.  EPA-EFE/JAWAD JALALI
Ashraf Ghani, forseti Afganistans. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ashraf Ghani, forseti Afganistan.

Hvað felst í samkomulaginu?

Víkur þá sögunni aftur að samkomulaginu sögulega sem var undirritað í Doha undir lok síðasta mánaðar. Sem fyrr segir komu afgönsk stjórnvöld ekki að undirritun samkomulagsins, heldur sérstakur erindreki Bandaríkjanna í málefnum Afganistans, Zalmay Khalilzad og samningamaður Talíbana, Mullah Abdul Ghani Baradar. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fylgdist með. Þegar samkomulagið hafði loks verið undirritað lýsti Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, því yfir að nú væri fyrsta skrefið í átt til friðar tekið. Við hlið hans stóð Ashraf Ghani, forseti landsins. Ghani tók undir orð Espers, og bætti því við að afganska ríkisstjórninin væri nú tilbúin til þess að fara í samningaviðræður við Talíbana. 

Það er nefnilega svo, að nú þurfa Talíbanar og afgönsk stjórnvöld að setjast niður og ræða framhaldið.

Í samningi Talíbana og Bandaríkjastjórnar var kveðið á um að afgönsk stjórnvöld létu lausa fimm þúsund Talíbana sem eru nú í haldi í fangelsum víðs vegar um landið. Í staðinn láti Talíbanar um þúsund afganska hermenn lausa á móti. Ghani forseti var heldur betur ekki á því í upphafi en hefur nú mildast og samþykkt að sleppa föngum úr halda. Talan hefur þó lækkað úr fimm þúsund niður í fimmtán hundruð, og verður þeim sleppt á næstu tveimur vikum. 

Það er því eitthvert skrið komið á samtal afganskra stjórnvalda og Talíbana, en hafa verður í huga að í augum Talíbana, eru afgönsk stjórnvöld ekkert annað en leppstjórn fyrir Bandaríkin. Og til að bæta gráu ofan á svart fyrir afgönsku ríkisstjórnina, þá er auk þess meiri háttar stjórnarkreppa í landinu. 

Kosið var til forseta síðasta haust en niðurstöður kosninganna voru kynntar í síðasta mánuði, og hafði Ghani nauman sigur gegn mótframbjóðanda sínum, Abdullah Abdullah. Sigurinn var eins tæpur og þeir gerast, en Ghani hlaut 50,64% atkvæða. Abdullah telur að brögð hafi verið í tafli, og því sóru þeir báðir embættiseið, sitt í hvoru lagi, sem forsetar síðastliðinn mánudag. Ghani er vissulega réttkjörinn forseti, en hvort Talíbanar taka mark á því, er annað mál. 

epa08281070 An Afghan security officer stands guard at palace tower during the swearing-in ceremony at the presidential palace in Kabul, Afghanistan, 09 March 2020. Ghani was announced on 18 February as winner of the presidential elections held on 28 September 2019 by 50.64 percent of total votes.  EPA-EFE/JAWAD JALALI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá Kabúl.

Ganga Talíbanar á lagið?

Eins og staðan er núna hafa Talíbanar því pálmann í höndunum. Ef þeir standa við sinn hluta samkomulagsins við Bandaríkin og sjá til þess að Al-Kaída eða önnur hryðjuverkasamtök fái ekki rekið starfsemi sína í Afganistan á næsta ári eða svo, eru þeir lausir við erlent herafl úr landinu. Eftir stendur þá afganska ríkið, en ekkert í samkomulaginu margrædda lýtur að því hvað gerist eftir að herliðið fer. 

„Því miður nær þetta samkomulag ekki yfir það sem mun gerast eftir að herliðið fer í burtu, sem á að gerast á næstu fjórtán mánuðum. Í því er ekki tekið tillit til þess hvort það eigi að nást pólitískur stöðugleiki, eða hvort samsteypustjórn verði mynduð.“

Samsteypustjórn, sem Brynja nefnir hér, er einmitt það sem Talíbanar vilja núna. Eða það segjast þeir vilja, allavega. 

„Þeir hafa sína pólitísku sýn og vilja fá að vera yfir ráðuneytinum sem hafa mikil áhrif á menningu og daglegt líf í Afganistan. Þeir vilja fá upplýsingaráðuneytið, innanríkisráðuneytið og ráðuneyti trúarlegra mála, og svo framvegis. Ráðuneyti sem hafa gífurleg áhrif,“ segir Brynja.

Höfum þó í huga að þegar Talíbanar réðu síðast yfir Afganistan, voru sjaría-lög í landinu. Þeir aðhyllast þau enn þá, en einhvers konar mildari útgáfu, segja þeir. Það er þó erfitt að segja til um hvort þeim orðum fylgi efndir.

epa05327909 An undated handout picture released on 25 May 2016 by the Afghan Talibans shows their new supreme commander Molvi Haibatullah Akhunzada, who will succeed their slain leader Mullah Akhtar Mansoor. Akhunzada was announced as the new leader after
Haibatullah Akhundzada, leiðtogi talibana í Afganistan. Mynd: EPA - AFGHAN TALIBAN
Molvi Haibatullah Akhunzada er núverandi leiðtogi Talíbana.

„Í dag segjast Talíbanarnir vera orðnir mun mildari, og segjast vilja væga útgáfu af Sjaría-lögunum. Þeir segjast vera tilbúnir að skoða það, kannski, að leyfa konum að læra að lesa. En raunin er náttúrulega sú að þegar Talíbanar voru síðast við stjórn þá fengu stúlkur ekki að læra að lesa. Konur máttu ekki vinna og það var ógnarstjórn. Fólk sem rak leynilega stúlknaskóla var tekið af lífi.“

Það er sömuleiðis erfitt að gera sér í hugarlund hvernig afganska ríkisstjórnin hyggst starfa með Talíbönum, standi þeir við sinn hluta samkomulagsins, hætti ofbeldisverkum, stöðvi hryðjuverkastarfsemi og sleppi afgönskum hermönnum úr sínu haldi. En erlent herlið er á leið úr landi eftir nærri tveggja áratuga átök, og ætla mætti að það væru góðar fréttir. Eða hvað? Brynja óttast að mikil stríðsþreyta Bandaríkjanna og NATÓ gæti gert það að verkum að Talíbanar komist upp með að virða samkomulagið ekki að fullu. Þar gæti hnífurinn staðið í kúnni. Þegar Bandaríkin og NATO kveðja Afganistan að fullu, að því gefnu að það gangi eftir, standa Talíbanar eftir annars vegar, og afgönsk stjórnvöld hins vegar. 

„Það sem er hætta á að gerist, og eitthvað sem Bandaríkin og NATÓ hafa verið gagnrýnd fyrir, er að þegar herliðið hverfur í brutu, sem er búið að vera hálfgerður öryggisventill á ofbeldið, að þá fari allt til fjandans. Og hvað gerum við þá? Hvert er þá hlutverk alþjóðasamfélagsins?“ spyr Brynja Huld. Það verður tíminn að leiða í ljós. Eins og staðan er núna virðist sem stríðið í Afganistan, eins og við þekkjum það, sé á enda á komandi ári. Stríð Bandaríkjanna, það er að segja. En hvort friður komist á í Afganistan og almennir borgarar geti gengið þar um sem frjálsir menn - það er annað mál.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi