Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heldur vel utan um fólk

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, fær átján milljón króna framlag til að standa straum af sívaxandi starfsemi sinni. Síðdegisútvarp Rásar 2 brá sér í heimsókn í Aflið og forvitnaðist um starfsemina.

Skjólstæðingum fjölgar

Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnastjóri Aflsins, segir að skjólstæðingum samtakanna hafi fjölgað mikið undanfarin ár, sem hafi kallað á aukið fé. Til Aflsins leitar fólk sem hefur orðið fyrir hvers kyns ofbeldi og þjónusta samtakanna byggist á einstaklingsviðtölum og hópastarfi.

Víðtæk þjónusta á sama stað

Aflið er til húsa í gulu timburhúsi við Aðalstræti 14 sem þekkt er sem Gamli spítalinn í innbænum á Akureyri. Þar hefur Aflið verið frá 2016 og segir Sigurbjörg að húsið taki vel á móti fólki. „Það tekur svo vel utan um mann og er svo hlýlegt og gott,“ segir hún.

Aflið deilir húsinu með Bjarmahlíð, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Í Bjarmahlíð er hægt að hitta lögreglu, lögfræðinga, félagsþjónustu og fá stuðning, ráðgjöf og upplýsingar á sínum eigin forsendum. Fólk sem leitar í Aðalstræti 14 fær þannig alla nauðsynlega þjónustu á sama stað og segir Sigurbjörg starfsemi Aflsins og Bjarmahlíðar fara vel saman.

Hér má hlusta á viðtalið við Sigurbjörgu.

Símaviðtöl góður kostur

Þjónustan í Aðalstræti 14 er eina fasta starfsemin fyrir þolendur ofbeldis utan höfuðborgarsvæðisins. Stígamót veita þjónustu hálfsmánaðarlega á Egilsstöðum og á Ísafirði og er sú þjónusta eftirsótt.

Sigurbjörg segir því ekki margt í boði í minni byggðakjörnum og í dreifbýli úti á landi. „En það sem er helst fyrir þetta fólk er að vera í símasambandi. Við veitum símaviðtöl og jafnvel skype-viðtöl, þannig að það væri þeirra leið,“ segir hún. „Við erum líka að taka á móti fólki alveg frá Hvammstanga sem hefur keyrt til Akureyrar til að koma í viðtöl, jafnvel í eitt viðtal og svo eru símaviðtöl. Þannig að við erum að fá fólk víða að til okkar,“ segir Sigurbjörg. 

Árlegar fjárhagsáhyggjur

Aflið fékk nýverið átján milljón króna framlag frá ríkinu til að standa undir sívaxandi starfsemi sinni. Sigurbjörg segir starfsfólk vonast helst til að komast á föst fjárlög. Mikill tími og orka fari árlega í að berjast fyrir fé í reksturinn. 

„Þá getur maður látið orkuna fara í að vinna að verkefnum, til dæmis langar okkur að ná betur til erlendra kvenna. Það er hópur sem að við erum ekki að ná nógu mikið til. Eins að komast aðeins meira út á landsbyggðina og þess háttar. En þetta er allt verkefni sem þarf pening í og þarf tíma og við höfum ekki haft þann tíma og peninga,“ segir Sigurbjörg. 

Gígja Hólmgeirsdóttir ræddi við Sigurbjörgu Harðardóttur, verkefnastjóra Aflsins á Akureyri, í Síðdegisútvarpi Rásar 2.