„Við megum ekki gleyma“

Mynd: Listasafnið á Akureyri / RÚV

„Við megum ekki gleyma“

14.10.2019 - 15:29

Höfundar

Nýverið opnaði Halldóra Helgadóttir myndlistarmaður málverkasýninguna Verkafólk á Listasafninu á Akureyri. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á líf og störf verkafólks sem að mati Halldóru voru undirstaðan í samfélaginu í byrjun síðustu aldar og fram eftir öldinni. Á sýningunni er sérstaklega horft til þeirra sem störfuðu í verksmiðjunum á Gleráreyrum á Akureyri. 

Iðnaður hófst á Gleráreyrum 1897 með litlu fyrirtæki þar sem aðallega var spunnin og kembd ull fyrir bændur. Sú starfsemi sprengdi utan af sér og árið 1907 var byrjað að byggja verksmiðju sem kölluð var Gefjun eða Verksmiðjuhöllin.

Samband íslenskra samvinnufélaga kaupir svo starfsemina árið 1930 og iðnaður á Akureyri heldur áfram að blómstra fram eftir öldinni. Þegar mest var voru rúmlega 1.000 manns á launaskrá og verksmiðjurnar einn stærsti vinnustaðurinn á Akureyri. Sambandið sameinast svo Álafossi árið 1988 og eftir það fækkaði starfsfólki mikið í verksmiðjunum á Gleráreyrum.

Mynd með færslu
Horft yfir verksmiðjusvæðið á Gleráreyrum þar sem stundaður var blómlegur iðnaður í tugi ára. Þar voru meðal annars framleiddar hinar þekktu Rússapeysur.

Vildi segja þeirra sögu

Gefjunarhúsið var loks rifið árið 2007 og verslunarmiðstöðin Glerártorg reist á gamla iðnarðarsvæðinu. Rætt var við Halldóru Helgadóttur myndlistarmann í Sögum af landi á Rás 1. Þar rifjar Halldóra upp þegar hún kom eitt sinn í verslunarmiðstöðina. „Ég sá allar breytingarnar sem eru auðvitað bara breytingar dagsins í dag og auðvitað framþróun. En það var ekki stafur um fólkið sem hafði verið þarna og allt þetta líf sem þarna hafði verið. Ég veit að fleiri hafa gert þessu skil, en mig langaði til þess að segja frá líka og nálgast þetta fólk og draga fram mikilvægi þess. Og af því mér finnst þægilegra að segja sögur með málverki heldur en að skrifa eða tala, þá mála ég myndir. Það er mín leið.“

Sungu við störfin

Halldóra vann sjálf eitt sumar í verksmiðjunum þegar hún var 14 ára. Þá vann hún á vefdeildinni, í spólunum. Þar þurfti að passa að ullarþráðurinn slitnaði ekki þegar ullin var unnin og fylgjast vel með að þráðurinn væri í lagi. „Við vorum nokkrar unglingsstelpur og stóðum á einhverju bretti fyrir framan spólurnar. Og þegar við vorum á kvöldin að vinna þá vorum við oft að syngja. Sungum allar. Þetta hefur verið eins og á ökrunum í Ameríku. Þá var tekið lagið og sunginn einhver slagari. Og strákgreyið sem var verkstjóri yfir okkur, við bjuggum til nýja texta og settum inn nafnið hans. Við vorum auðvitað bara að stríða. En það var voða mikið stuð og gaman. Þetta var svona unglingahópur í sumarvinnu,“ rifjar Halldóra upp.

Alltaf sama hreyfingin

Vinna fólks í verksmiðjunum einkenndist oft af löngum vöktum við allavega aðstæður þar sem sama hreyfingin var endurtekin í sífellu. Halldóra segir þetta hafa vera mikla líkamlega áreynslu og hún leitaðist við að fanga þessa hreyfingu í málverkinu. „Ég er með stórar myndir. Eina sem ég kalla Sveiflu, þá hugsa ég með mér að konurnar séu að dansa þar sem þær eru að teygja og toga ullina. Hina kalla ég Takt þar sem karlarnir nota kraftana til þess að þurrka ullina og búa til bobbinga. Myndrænt séð var gaman að setja tvö pör, tvær konur og tvo karla, að hreyfa sig í hálfgerðum dansi,“ segir Halldóra.

Mynd með færslu
Halldóra Helgadóttir sýnir gesti á opnuninni verkið Takt, þar sem sjá má verkamenn að störfum. Hinum megin má sjá glitta í verkið Sveiflu.

Þetta eru ræturnar okkar

Halldóra segir mikilvægt að segja sögu þessa fólks og það sé í raun meginþemað á sýningunni. „Mér finnst þetta svo merkileg saga og stór hluti af uppbyggingu þessa bæjar að við megum ekki gleyma því. Við þurfum að halda þessu á lofti, eins og svo mörgu öðru. Þetta eru ræturnar okkar. Við þurfum að tala um þetta og minna okkur á. Eins og hvað þetta verkafólk gerði, það barðist fyrir alls konar réttindamálum sem okkur finnst svo sjálfsögð í dag. Ég man eftir löngum verkföllum. Fólk var kannski þrjár vikur í verkföllum og það var barist fyrir alls konar hlutum. Styttri vinnuviku, tryggingamálum og öllu þessu sem okkur finnst svo sjálfsagt. Ekki bara þetta verkafólk á Akureyri heldur verkafólk almennt,“ segir Halldóra.

Rætt var við Halldóru í útvarpsþættinum Sögum af landi á Rás 1. Hægt er að hlusta á ítarlegra viðtal við hana í spilaranum hér að ofan.

Þáttinn í heild sinni má finna í spilara RÚV, í honum var rifjuð upp saga verksmiðjanna á Gleráreyrum. Þar var rætt við Þorstein E. Arnórsson fyrrverandi forstöðumann Iðnaðarsafnsins á Akureyri, Arndísi Bergsdóttur doktor í safnafræði og Hólmfríði Högnadóttur skósmið á Akureyri.

Mynd með færslu
Verkið Einu sinni var, sem Halldóra byrjaði að vinna að fyrir um 6 árum og markar upphafið af verkunum á sýningunni. Unnið út frá ljósmynd af gamalli konu að störfum.

 

Sögur af landi eru á dagskrá Rásar 1 á föstudögum klukkan 15.03 og endurfluttar á sunnudögum klukkan 13. Þátturinn er í Spilara RÚV og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Dalabyggð

Mokar heimshornaleir og heldur býflugur

Mannlíf

Hugurinn var alltaf í sveitinni

Myndlist

Myndirnar urðu til í huganum