Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óvíst um örlög verðmætrar fiðlu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV

Óvíst um örlög verðmætrar fiðlu

06.09.2019 - 15:57

Höfundar

Ekki hefur verið ákveðið hvort Maggini-fiðla Sinfóníuhljómsveitar Íslands verði seld, þrátt fyrir heimild í fjárlögum þess efnis. Verðmæti fiðlunnar er áætlað 15 til 20 milljónir.

Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í dag er heimild til að selja Maggini-fiðlu Sinfóníuhljómsveitarinnar og verja andvirðinu til kaupa á öðru „hentugra“ hljóðfæri. Að sögn Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur ekki verið tekin ákvörðun um sölu fiðlunnar sem er í eigu ríkisins en vörslu hljómsveitarinnar.

Heimildin var einnig til staðar í fyrra en þá kom fram í umfjöllun RÚV að Maggini-fiðlan hafi fyrst verið keypt á árdögum Ríkisútvarpsins og fyrst notuð af Jóni Sen. Fiðlan hentaði Jóni vel, enda hávaxinn og með stórar hendur. Ari Þór Vilhjálmsson sem var leiðari 2. fiðlu Sinfóníuhljómsveitarinnar í nokkur ár gat einnig notað Maggini-fiðluna en hann er einnig hættur. Að sögn Láru Sóleyjar er fiðlan þó enn í notkun.

Verðmæti fiðlunnar er talið geta hlaupið á 15 til 20 milljónum króna.

Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 58 milljóna króna niðurskurði hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Lára Sóley segir að framkvæmdastjórn hljómsveitarinnar hafi fengið skilaboð um niðurskurðinn í júní og því hafi gefist tími til að haga áætlunum í samræmi við það. „Allt skiptir máli og þetta getur haft áhrif á starfsemi hljómsveitarinnar að einhverju leyti. Við erum að gera okkar besta til að hagræða eins og þarf.“

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Vill selja sögufræga fiðlu fyrir handstóra