Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Prófessor sneiðir hjá innfluttu grænmeti

05.01.2019 - 18:46
Prófessor og yfirlæknir á Landspítala segir að sporna verði við auknum innflutningi á erlendum matvælum. Sýklalyfjanotkun í erlendum landbúnaði auki hættu á útbreiðslu baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Það sé ein mesta lýðheilsuógn heims. Sjálfur segist hann sneiða alveg hjá innfluttu grænmeti og reynir að kaupa bara íslenskt kjöt.

Athugasemd fréttamanns 26.4.2020: Fréttin er meira en árs gömul, síðan 5. janúar 2019, en hefur nú komist í töluverða umferð á samfélagsmiðlum. Umfjöllunarefni fréttarinnar er ekki tengt Covid-19 eða kórónuveirum. 

Nær allt framleitt í verksmiðjubúskap

70 til 80 prósent sýklalyfja í Bandaríkjunum og Evrópu fara í búfénað. Til að anna síaukinni eftirspurn eftir kjöti eru lyfin sett í fóður til að auka vöxt og koma í veg fyrir sjúkdóma. 99% kjúklingakjöts og 95% svínakjöts í Bandaríkjunum eru framleidd á verksmiðjubúgörðum. Kjötið inniheldur því mikið af bakteríum sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, eins og úrgangurinn, sem skilar sér í jörð og vatn og þannig í grænmetið.  

Ein mesta lýðheilsuógn heims

Prófessor og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, Karl G. Kristinsson, segir Ísland hafa algera sérstöðu vegna lítillar notkunar sýklalyfja í landbúnaði og lágs hlutfalls sýklaónæmis. Rýmri tollareglur og aukinn innflutningur ógni þessari stöðu og segir hann eftirliti hér verulega ábótavant. 

„Þar sem sýklalyfjaónæmi er ein mesta ógn við lýðheilsu heimsins í heiminum í dag, og það eru engir nýir sýklalyfjaflokkar væntanlegir, þá finnst mér við bera ábyrgð á því hvort við notum allar leiðir til þess að tefja aukningu á sýklalyfjaónæmi á Íslandi,” segir Kristinn. „Því við skuldum börnunum okkar það að hafa virk sýklalyf eins lengi og hægt er.”

Aukin kjötneysla og aukinn innflutningur

Heilbrigðisyfirvöld heims hafa varað við þeirri ógn sem stafar af ónæmi gegn sýklalyfjum. Árið 2016 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp til að koma með tillögur til að sporna við útbreiðslu slíkra baktería hérlendis. 

Kjötneysla Íslendinga er sífellt að aukast, en undanfarin ár hefur innflutningur á kjúklingi, svíni og nauti aukist mun meira hlutfallslega heldur en innlend framleiðsla. 

Innflutningur á alifuglakjöti þrefaldaðist á tímabilinu, úr rúmum 500 tonnum í 1400. Hlutfall útlensks svínakjöts hér hefur margfaldast á tímabilinu. Það var um fjögur prósent af kjötinu hér 2012 en fór í tæp 25 prósent 2017. 
Innflutt nautakjöt er einnig mun algengara en áður, 190 tonn voru flutt inn 2012 en 850 tonn 2017. 

Vill að Ísland verði sjálfbært í matvælaframleiðslu

Í erindi sínu á heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands sagði Karl að aukinn innflutningur flýti fyrir því að bakteríurnar nái bólfestu hér. Íslendingar ættu að verða sjálfbærir í matvælaframleiðslu til að tryggja fæðuöryggi. 

„Þá þurfum við ekki að flytja eins mikið inn af landbúnaðarafurðum sem eru mengaðar af fjölónæmum bakteríum,” segir hann. Spurður hvort hann borði sjálfur innflutt matvæli segir Karl: „Ég er meðvitaður og sneiði hjá innfluttu grænmeti. Og reyni alltaf að kaupa kjöt sem er innlent. En vandinn er, að ef þú ert að borða á veitingastað eða í mötuneytum, þá veistu ekki hvað þú ert að fá.”