Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

20.000 nígerískar konur kynlífsþrælar í Malí

24.01.2019 - 04:29
epa05584409 Some of the 21 released Chibok girls at the Presidential villa in Abuja, Nigeria 13 October 2016. Reports says 21 of the 270 girls siezed by Islamist militant group Boko Haram in 2014 were released. According to President Muhammadu Buhari&#039
Nokkrar stúlknanna sem vígamenn Boko Haram rændu í Chibok 2014. 276 stúlkum var rænt, 112 úr þeim hópi er enn saknað.  Mynd: EPA
Sú deild nígerískra lögregluyfirvalda sem sérhæfir sig í mannránum og mansali hefur fundið þúsundir nígerískra stúlkna og kvenna, sem saknað hefur verið um lengri og skemmri tíma, í suðurhluta nágrannaríkisins Malí. Talið er víst að langflestar þeirra hafi ýmist verið ginntar eða numdar á brott og síðan seldar mansali, oftar en ekki í kynlífsþrælkun.

Samkvæmt mansalsdeildinni eru á bilinu 20.000 - 45.000 nígerískar konur og stúlkur í Malí, gegn vilja sínum, og er ætlunin að koma þeim aftur heim til sín hið fyrsta. Julie Okah-Donli, forstjóri mansalsdeildarinnar, segir flestar konurnar koma frá dreifbýlum svæðum í sex ríkjum Nígeríu.

20.000 þvingaðar í vændi

„Þær voru ginntar til Malí með fyrirheitum um að þær myndu fá vinnu á hótelum, til dæmis," segir Okah-Donli í samtali við Al Jazeera-fréttastöðina. „Sumum var hreinlega rænt á leiðinni í skólann." Okah-Donli segir að ríflega ein milljón nígerískra ríkisborgara búi í Malí. Þar á meðal eru um 20.000 konur sem þvingaðar eru til vændissölu. „Aðstæður þeirra eru skelfilegar. Þeim er haldið í myrkviðum frumskógarins og eiga sér enga undankomuleið," segir Okah-Donli, enda sé þeirra vandlega gætt af hórmöngurunum.

Mannrán og mansal landlægt vandamál

Mansal er útbreitt og alvarlegt vandamál í Nígeríu og hefur lengi verið. Amnesty International telur að hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafi rænt um 2.000 stúlkum og drengjum frá árinu 2014. Mörg þeirra enda sem kynlífsþrælar, önnur sem barnahermenn og enn önnur eru þvinguð til sjálfsmorðsárása.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá siðasta ári um ástandið í Nígeríu kemur meðal annars fram að finna megi nígerísk fórnarlömb mannræningja, sem seld hafi verið mansali, í um það bil 40 ríkjum heims. Þar segir enn fremur að „80 prósent allra nígerískra föru- og flóttakvenna á Ítalíu [séu] eða muni verða þolendur kynlífsþrælkunar.“ 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV