Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

200 þúsund krónur nóttin

15.08.2016 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Dæmi eru um að gistiheimili í Reykjavík bjóði fjögurra manna herbergi, þar sem deila þarf baðherbergi með fleirum, á tæpar 200 þúsund krónur nóttina. Forstöðukona höfuðborgarstofu segir slíka verðlagningu helst bitna á gistiheimilinu sjálfu. Hún segir gistirými í borginni fullnýtt .

Fjöldi ferðamanna í Reykjavík á þessu ári er langt umfram það sem spár gerðu ráð fyrir og er nú svo komið að borgin er nánast sprungin hvað gistirými varðar. 

„ Það má eiginlega segja að borgin sé sprungin. Ferðamönnum hefur fjölgað miklu hraðar en nokkur átti von á og við erum að takast á við 35% aukningu á fyrstu mánuðum þessa árs. Það tekur langan tíma að byggja gistirými í borginni, það tekur 2-3 ár að byggja hótel og á sama tíma fjölgar ferðamönnum mjög hratt, þannig að við erum vissulega að takast á við miklar árskoranir núna,“ segir Áshildur Bragadóttir forstöðukona Höfuðborgarstofu.

Áshildur segir að íbúðaeigendur hafi brugðist við þessu með því að leigja út og búið sé að setja lög um slíkt. Einnig hafi verið byggð gistirými í húsnæði víða í jaðri miðborgarinnarsem hafi staðið hálftómt. Hún telur ekki að fjöldi ferðamanna sé kominn að þolmörkum, heldur þurfi að dreifa þeim víðar um landið. 

Ein birtingarmynd ferðamannafjöldans er verðlagningin, ekki síst núna þegar Menningarnótt nálgast.  Á gistiheimili ekki fjarri Hlemmi er þriggja manna herbergi með sameiginlegu baðherbergi  boðið á tæplega 159 þúsund krónur á Menningarnótt og fjögurra manna herbergi, með tveimur rúmum og koju og sameignlegu baðherbergi er boðið á rúmlega 193 þúsund krónur umrædda nótt. Forstöðukona höfuðborgarstofu setur spurningarmerki við þetta.

„Ég held að þetta verð sem þú ert að nefna þarna fyrir herbergi á gistiheimili sé ekki það sem gengur og gerist á markaðnum og ég held að rekstraraðili sem setur upp svona verðlag sé frekar að skaða sjálfan sig heldur en nokkurn annan. Ferðamenn taka með sér upplýsingar og samfélagsmiðlarnir eru orðnir nokkuð virkir og eru að gefa fyrirtækjum og stöðum einkunn, þannig að ég held að það sé frekar þessa aðila að skoða hjá sjalfum sér hvort að þetta séð eðlileg verðlagning. Sem ég held að geti ekki talist,“ segir Áshildur Bragadóttir.

Starfsmenn gistiheimilisins sem fréttastofan ræddi við sögðu verðlagið vera breytilegt, verð færi upp og niður eftir framboði og eftirspurn. Ekki náðst í eiganda gistiheimilisins vegna þessa máls.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV