200 milljónir til framkvæmda í Kópavogi

25.01.2018 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Íbúar Kópavogs geta kosið frá og með deginum í dag til 5. febrúar um hundrað hugmyndir um smærri nýframkvæmdir- og viðhaldsverkefni í Kópavogi. Kópavogsbær ætlar að verja 200 milljónum til framkvæmda.

Allir íbúar, 16 ára og eldri með lögheimili í Kópavogi geta kosið verkefni sem hugnast þeim best. Í kosningunni er Kópavogi er skipt upp í fimm hverfi. Kjósendur geta kosið um tuttugu hugmyndir í hverju hverfi. Upphæð sem hvert hverfi fær miðast að íbúafjölda þeirra. Kársnes fær rúmlega 30 milljónir króna, Digranes fær rúmlega 50 milljónir króna, Smárinn fær rúmlega 20 milljónir króna, Fífuhvammur fær tæplega 40 milljónir króna og Vatnsendi fær rúmlega 40 milljónir króna.

Hugmyndir sem íbúar geta kosið í Kársnesi eru endurnýjaður boltavöllur við Hlégerðisgarð, útilistaverk við sunnanverðan Kárnessstíg og eplatré og berjarunna á opnum svæðum. Í Digraneshverfi geta íbúar kosið um að gera stórt grillskýli og afgirt hundagerði með hundafimtækjum í Kópavogsdal og rathlaupabraut í Fossvogsdal. 

Hugmyndir að verkefnum í Smáranum er hjólaleið við Fífuhvammsveg og hljóðvarnargirðing við Hafnafjarðarveg á móts við tjörnina í Kópavogsdal. Í Fífuhvammi geta íbúar kosið um klifurvegg á lóð Salaskóla og búnað til rafrænnar vöktunar í hverfum sem lögreglan hefur umráð yfir. Í Vatnsendahverfi er kosið um til dæmis klifurtækni á lóð Vatnsendaskóla, útsýnisskífa í Vatnsendahlíð og hjólabrettavöllur á lóð Hörðuvallaskóla. Kosningin fer fram á kópavogur.is.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi