Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

200 milljarðar í vegaframkvæmdir á næstu árum

Langidalur í A-Húnavatnssýslu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Stefnt er að um 200 milljarða vegaframkvæmdum á næstu fimm árum. Tæpa 60 milljarða á að fá með veggjöldum á Suðvesturhorninu. Stórar samgönguframkvæmdir eru fram undan á Vestfjörðum, en Norðurland stendur vel eftir miklar og dýrar framkvæmdir undanfarin ár. Suðvesturlandi.

Hátt í 30 banaslys í umferðinni síðustu tvö ár

Í fimm ára samgönguáætlun er gert ráð fyrir 190 milljörðum, þar af 160 í vegi. Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar telur þörfina allt að 400 milljarða og vill að veggjöld brúi bilið eitthvað, en minnihlutinn er ósammála því. Allir vilja bæta öryggi, en síðustu tvö ár hafa nær 30 dáið í umferðinni og nokkur hundruð slasast alvarlega. 

57 milljarðar frá veggjöldum í vegina

Meirihluti nefndarinnar leggur til að veggjöld fjármagni vegaframkvæmdir á þremur svæðum til að auka öryggi.  Á Suðursvæði 1 eru fjórir staðir: Brú á Ölfusá, Biskupstungnabraut og Kambar, Skeiðarvegamót og Skógarhlíðabrekka í Þrengslunum. Þetta eru 35 kílómetrar og kosta rúma 19 milljarða króna.  

Í Reykjavík og nágrenni eru 10 staðir. Meðal annars Bæjarháls, Kjalarnes, Reykjanesbraut, Breiðholtsbraut og Grindavíkurvegur, alls um 50 kílómetrar og kosta 32 milljarða. 

Síðan er lagður til 30 kílómetra kafli á Akrafjallsvegi, sem kostar sex milljarða. 
Alls eru lagðir til 115 kílómetrar af framkvæmdarsvæðum á Suður- og Vesturlandi sem kosta rúma 57 milljarða króna, kostuð af veggjöldum almennings.

Dýrar framkvæmdir að baki á Norðurlandi

Á Norðurlandi hafa verið gerðar miklar samgöngubætur á undanförnum árum. Vaðlaheiðargöng eru auðvitað nærtækasta dæmið, framkvæmd upp á 17 milljarða sem á einmitt að greiða upp með veggjöldum. Nú er spurning hvort kvótinn sé búinn, eða staðan hreinlega nægilega góð, því það er lítið um stórar vegaframkvæmdir í þessum landshluta á allra næstu árum.

Meirihlutinn vill þó flýta endurbótum á Langanesströnd og ljúka á næstu árum. Síðan hefjast langþráðar framkvæmdir á Brekknaheiði. Þá á að klára Dettifossveg á næstu tveimur árum. 

Margt í pípunum á Austurlandi

Á næstu fimm árum á að fara í nokkrar framkvæmdir á Austurlandi. Nýr vegur við Berufjarðarbotn á að komast í gagnið í ár, sem og ný brú yfir Steinavötn í stað þeirra gömlu sem eyðilagðist í flóðum. Þá á þverun Hornafjarðarfljóts að hefjast, en meirihlutinn vill seinka framkvæmdum við það, flytja hluta kostnaðar sem átti að falla til á næstu 5 árum yfir á næsta tímabil. Framkvæmdir við veginn til Borgarfjarðar eystra eru hafnar í Njarðvíkurskriðum, en einnig á að leggja slitlag á Vatnsskarð og milli Eiða og Laufáss. Samtals eru þetta rúmir 46 kílómetrar og eiga að kosta tæpa 4,4 milljarða á tímabilinu. Sú upphæð lækkar um meira en milljarð ef breytingatillagan um seinkun framkvæmda við Hornafjarðarfljót verður samþykkt. 

Skera niður um 300 milljónir en vilja samt tryggja það áfram

Langstærstur hluti framkvæmda á Vestursvæði er á Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng verða tilbúin 2020 og hafa verið uppnefnd dýrasti botnlangi landsins þar sem framkvæmdir á Dynjandisheiði eiga ekki að hefjast fyrr en 2022. En við verklok, ásamt umdeildum vegi um Gufudalssveit, styttist leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um 50 kílómetra, sem líklega beinir umferð úr Djúpi til vesturs um Dýrafjarðargöng.

Framkvæmdir í Gufudalssveit tefjast þó og meirihluti nefndarinnar segir að þrjú hundruð milljónir af fénu verði skornar niður en vill tryggja fé síðar í verkinu. Aftur á móti er lagt til að vegagerð um Veiðileysuháls í Árneshrepp verði flýtt. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV