Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

20 barnaníðingar dæmdir í Bretlandi

epa03363532 (FILE) A file photograph showing a general view of a police officer on Saddleworth Moor near Huddersfield. north west England, 29 July 2008. Media reports on 17 August 2012 state that Greater Manchester Police said they think 'Moors
 Mynd: EPA
Tuttugu karlar hafa verið sakfelldir og dæmdir til samtals 220 ára fangelsisvistar í Bretlandi fyrir að hafa árum saman níðst á og nauðgað 15 ungum stúlkum. Stúlkurnar áttu allar við erfiðleika að stríða og níðingarnir tældu þær til sín með skipulögðum hætti.

Höfuðpaur níðingahringsins heitir Amere Singh Dhaliwal og er 35 ára gamall. Hann var á föstudag fundinn sekur um 54 brot gegn ungum stúlkum, þar á meðal 22 nauðganir, og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann þarf að afplána að minnsta kosti 18 ár. Maðurinn er kvæntur og tveggja barna faðir.

Fréttabann á réttarhöldin

Réttarhöldin yfir mönnunum 20 frá Huddersfield hafa vakið mikla athygli í Bretlandi, ekki síst vegna þess að fréttabann var sett á réttarhöldin, sem yfirlýstur baráttumaður gegn íslam reyndi að spilla. Þetta eru síðustu réttarhöldin í röð margra þar sem barnaníðingshringar nota það sem á ensku, og reyndar skandinavísku líka, er kallað „grooming“. Hér hefur hugtakið tæling verið notað um þessa aðferð níðinganna, en ferlið gengur út á að fullorðinn karl byggir upp trúnaðarsamband við barn, yfirleitt á samfélagsmiðlum, með það eitt að markmiði að níðast á barninu kynferðislega.

Þessi málaferli eru þau stærstu í röð samsvarandi málaferla í Bretlandi, áður hefur verið réttað yfir hópum karla í Rotherham, Rochdale, Oxford, Bristol, Peterborough og Newcastle.

Tælingarferlið og ofbeldið

Allar stúlkurnar sem mennirnir tældu til fylgilags við sig bjuggu við erfiðar fjölskylduaðstæður, sumar stríddu við erfiðleika í námi eða áttu foreldra sem voru fíklar. Þær voru allt niður í 11 ára gamlar.

Mennirnir byggðu upp trúnaðarsamband við stúlkurnar, dældu í þær gjöfum, böngsum, sælgæti, fötum, ilmvötnum og skartgripum. Þegar stúlkurnar voru farnar að treysta þeim, tóku þeir að hella í þær áfengi eða dæla í þær eiturlyfjum og skipulagðar nauðganir hófust. Mennirnir nauðguðu stúlkunum linnulítið frá 2004 til 2011, á bílastæðum, hótelum, skyndibitastöðum, billjardstofum og í útihúsum og eyðibýlum í nærliggjandi sveitum. Þá var þeim ítrekað hópnauðgað í svallveislum þar sem margir mannanna tóku þátt.

Breskir fjölmiðlar hafa á síðustu dögum tíundað einstök tilvik úr vitnaleiðslum málsins, en alls var réttarhöldunum yfir mönnunum skipt í þrennt. 

Þannig greinir breska ríkisútvarpið, BBC, frá því að á köldu rigningarkvöldi hafi þrjár 14 til 15 ára stúlkur bankað upp á á bóndabæ talsvert utan við Huddersfield. Bóndinn greinir frá því að stúlkurnar hafi verið kaldar, illa til reika og grátandi og ekki haft hugmynd um hvar þær væru. Hann spurði hvað hefði gerst og þá sögðu þær að þeim hefði verið fleygt út úr bíl á ferð. Hann segist hafa lagt alla áherslu á að koma stúlkunum heim, hann viðurkennir að hafa ekki haft samband við lögreglu en segist hafa grunað að þær hafi verið í slagtogi við eldri menn. 

Ein stúlka sem bar vitni við réttarhöldin, sagðist ekki hafa kunnað annað ráð en að henda sér fyrir bíl á ferð til að leita hjálpar, eftir að hafa verið skilin eftir ein, blóðug og marin, um miðja nótt á heiðinni. Einn sakborninga barði hana til óbóta og fleygði henni út úr bílnum eftir að hún neitaði að þýðast hann í bílnum. 

Foreldrum og fórnarlömbum hótað

Foreldrar stúlknanna báru sumir hverjir vitni við réttarhöldin. Þeir greindu frá því hvernig atferli og útlit stúlknanna tók skyndilegum breytingum. Þær fóru að klæða sig öðruvísi og vera meira og lengur að heiman. Foreldrarnir fengu engin svör frá stúlkunum, jafnvel ekki þó þær kæmu heim bláar eftir barsmíðar níðinganna. 

Sumir foreldrar greindu frá því að þeim hefði verið hótað; þeir skyldu ekki blanda sér í málið, hvað þá að hringja á lögreglu, ella myndu þeir eða dætur þeirra hljóta verra af. Ein stúlknanna sagði við réttarhöldin að drottnari hennar hefði hótað henni því að ef hún segði frá, þá myndu mennirnir fara heim og nauðga móður hennar að föður hennar ásjáandi.

Kerfið brást stúlkunum

Aðgerðaleysi stjórnvalda hefur verið harðlega gagnrýnt í tengslum við réttarhöldin, því þau höfðu ítrekað tilefni til þess að grípa til aðgerða.

Stúlkan, sem var fleygt út úr bíl á heiðinni, tilkynnti atvikið til að mynda til lögreglu sem aðhafðist ekki frekar. Stúlkurnar leituðu stundum á bráðamóttöku þegar níðingarnir höfðu misþyrmt þeim, lögregla var kölluð til vegna samkvæma sem níðingarnir héldu og hún stöðvaði nokkrum sinnum bíla þar sem karlar voru á ferð með kornungum stúlkum í skólaeinkennisbúningum. Ekkert gerðist. Ein mæðranna greindi meira að segja frá því við réttarhöldin að hún hefði skrifað bréf til forsætisráðherra, eftir að félagsmálayfirvöld höfðu neitað að bregðast við erindi hennar. Þær bréfaskriftir báru engan árangur.

Dómarinn í réttarhöldunum í Huddersfield segist aldrei hafa upplifað aðra eins grimmd á dómaraferli sínum og eins hræðilegar lýsingar. Hann sagði að flestar, ef ekki allar, stúlkurnar myndu bera ör á sálinni um alla ævi, og að enginn sakborninga hefði sýnt nokkur merki um iðrun.

Uppruni níðinganna

Mennirnir hlutu allt frá fimm ára og upp í lífstíðarfangelsisdóma. Dómsuppkvaðning yfir fjórum úr hópnum verður 1. nóvember. Þessir menn eiga það allir sameiginlegt að vera frá Pakistan.

Og það leiðir umræðuna yfir að öðru atriði sem hefur verið fjallað mikið um í tengslum við þessi réttarhöld. Uppruna mannanna.

Hann hefur leitt til tilfinningaþrunginna skoðanaskipta um hvort uppruni mannanna skiptir máli. Einn hópur heldur því fram að uppruni þeirra og trúarbrögð skipti öllu máli þegar kemur að glæpum þeirra, á meðan annar hópur segir slíkt engu máli skipta. Í leiðara breska blaðsins Guardian um helgina segir að báðir þessir hópar séu, með því að beina umræðunni í þann farveg, að bregðast þeim sem eigi sárast um að binda, fórnarlömbunum, stúlkunum 15. Það mikilvægasta nú sé tvennt; hvers vegna brást kerfið stúlkunum og hvað útskýrir hegðun karla sem níðast með þessum hætti á barnungum stúlkum? Síðari spurningin sé sérstaklega flókin, en engu að síður telji allir (flestir) sig eiga svar við henni. Það sé hreinlega of billeg skýring að kenna menningu, kynþætti eða trúarbrögðum um kynferðisofbeldi gegn ungum stúlkum. Sammy Woodhouse, sem er eitt fórnarlamba barnaníðingahringsins í Rotherham (þar sem flestir níðinganna voru einnig frá Pakistan), segir í viðtali við breska blaðið Independent að ekki megi gleyma því að flestir barnaníðingar séu hvítir karlar.

Andstæðingar múslima beita sér

Maðurinn sem öðrum fremur hefur dregið trúarbrögð og uppruna mannanna frá Huddersfield fram í sviðsljósið er Tommy Robinson, stofnandi English Defence League (EDL), sem eru samtök sem gefa sig út fyrir að vera andsnúin hinni róttæku og ofbeldisfullu hugmyndafræði íslamista en hafa þó í reynd beint spjótum sínum í miklum mæli að öllum múslimum og trúarbrögðunum sjálfum: Íslam. 

Dómstólar ákváðu fyrr á þessu ári að setja fréttabann á réttarhöldin yfir mönnunum 20 frá Huddersfield. Það var gert vegna þess að réttarhöldunum var skipt í þrennt og því var talin hætta á að fréttaflutningur af einum hluta réttarhaldanna gæti haft áhrif á kviðdómendur í öðrum hlutum og þá hefðu verjendur sakborninga getað farið fram á frávísun.

Tommy Robinson fann sig knúinn til þess í vor að brjóta fréttabannið þegar annar hluti réttarhaldanna stóð yfir í Leeds.

Hann sendi beint út frá dómshúsinu og gaf þar í skyn að verið væri að þegja málið í hel. Hann var handtekinn þegar í stað og dæmdur í 13 mánaða fangelsi fyrir að brjóta fréttabannið. Þeim dómi var síðar hnekkt vegna formgalla og verður dómur kveðinn upp yfir honum síðar í vikunni.

Dómarinn sem setti fréttabannið á, sagði að aðgerðir Robinsons hefðu stofnað réttarhöldunum í mikla hættu, frávísun hefði ekki aðeins getað kostað skattborgarana hundruð þúsunda sterlingspunda, þær hefðu líka getað leitt til þess að sleppa hefði þurft barnaníðingunum úr haldi.

Hundruð þúsunda manna um allan heim hafa horft á klukkustundarlanga útsendingu Robinsons og stuðningsmenn hans töldu að með fangelsun Robinsons væri gróflega vegið að tjáningarfrelsinu. Verjendur barnaníðinga í öðrum málum hafa áður krafist þess að málum verði vísað frá og skjólstæðingum þeirra veitt frelsi, einmitt út frá því sjónarmiði að kynþáttahatarar hafi með aðgerðum sínum sáð fræjum haturs í huga kviðdómenda. Kviðdómar verði alltaf að byggja dóma sína á staðreyndum, ekki skoðunum.

Blaðamaður Yorkshire Post, sem er eitt elsta dagblað Englands og eitt útbreiddasta dagblað Norður-Englands segir í grein sem hann birti að kvöldi föstudags eftir að dómur hafði verið kveðinn upp yfir Huddersfield-níðingunum að ábyrgðar- og skeytingarleysi Tommys Robinsons hefði getað leitt til þess að mennirnir væru frjálsir menn í dag. Hann hafi sett eigin hag og málstað ofar hag fórnarlambanna og því skuldi hann fórnarlömbunum 15 skilyrðislausa afsökunarbeiðni.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV