Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

198 dáin í skæðasta ebólufaraldri Austur-Kongó

epa06756608 A worker from the World Health Organization (WHO) holds up a vaccination as he prepares to administer it during the launch of an experimental Ebola vaccine in Mbandaka, north-western Democratic Republic of the Congo, 21 May 2018 (issued 22 May
 Mynd: EPA
Í Austur-Kongó geisar nú skæðasti ebólufaraldur sem upp hefur komið þar í landi, að sögn heilbrigðisyfirvalda. Oly Ilunga Kalenga, heilbrigðisráðherra, segir 319 staðfest eða mjög líkleg ebólu-tilfelli komin á skrá ráðuneytisins, einu fleira en þegar ebóla gaus fyrst upp í landinu árið 1976. Af þeim 319 sem hafa smitast hafa 198 dáið síðan fyrsta tilfellið greindist í ágúst síðastliðnum.

Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu á föstudag þar sem varað er við því að ástandið muni mögulega versna enn til muna vegna árása vígasveita og mótspyrnu almennings gegn því að fara að fyrirmælum yfirvalda um smitvarnir og bólusetningu, ekki síst á dreifbýlum svæðum þar sem staðan er hvað verst.

„Þessi faraldur er enn afar hættulegur og óútreiknanlegur, og nauðsynlegt að almenningur og yfirvöld haldi vöku sinni," segir ráðherrann Kalenga í yfirlýsingu sinni og upplýsir, að ráðist hafi verið á heilbrigðisstarfsfólk á vettvangi þrisvar til fjórum sinnum á viku að meðaltali, sem er miklum mun meira en áður hefur þekkst.

„Frá því að þau komu til héraðsins hafa viðbragðsteymin upplifað hótanir, líkamsárásir, ítrekuð skemmdarverk á búnaði þeirra og mannrán,“ segir Kalenga. Tveir starfsmenn viðbragðssveitanna hafa týnt lífi í árásunum. Faraldurinn í ár er sá tíundi sem upp hefur komið i Austur-Kongó síðan 1976.