Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

182 flóttamenn fá að fara í land á Ítalíu

23.09.2019 - 01:29
Mynd með færslu
Þessi stúlka, yngsti flóttamaðurinn um borð í Ocean Viking, er tíu daga gömul. Mynd: Læknar án landamæra
182 flóttamönnum sem nú eru um borð í norska björgunarskipinu Ocean Viking, þar á meðal mæðrum með kornabörn, verður heimilað að fara í land í ítölsku hafnarborginni Messina. Samtökin Læknar án landamæra, sem taka þátt í björgunarstarfi Ocean Viking, greindu frá þessu á Twitter í kvöld. Fólkinu var bjargað af tveimur yfirfullum fleytum á Miðjarðarhafi á miðvikudag og fimmtudag.

Samtökin og skipstjóri Ocean Viking sendu ítrekað út beiðni um að fá að sigla fólkinu í örugga höfn en fengu ekki svar fyrr en í kvöld, að ítölsk yfirvöld heimiluðu þeim að taka höfn í Messina á Sikiley. 14 börn eru um borð, það yngsta aðeins 10 daga gamalt.

Breytt stefna í málefnum flóttafólks og innflytjenda

Matteo Salvini, formaður Norðurbandalagsins og fyrrverandi innanríkis- og varaforsætisráðherra Ítalíu, var algjörlega mótfallinn því að hleypa flóttafólki sem bjargað var af Miðjarðarhafi í land á Ítalíu. Gekk hann svo langt að gefa út tilskipun, sem bannaði björgunarskipum að sigla inn í ítalska lögsögu, að viðlögðum háum sektum.

Stjórn hans og Fimmstjörnuhreyfingarinnar féll eftir að Salvini ákvað að draga sig og flokk sinn út úr henni, með það fyrir augum að knýja fram kosningar. Sú ráðagerð gekk þó ekki eftir, því forsætisráðherranum Giuseppe Conte tókst að mynda nýja ríkisstjórn með Demókrötum, studda af vinstriflokknum Frelsi og jafnrétti.

Tilslakanir á hinni hörðu stefnu og löggjöf Salvinis í málefnum flóttafólks og innflytjenda voru eitt meginskilyrði ríkisstjórnarþátttöku Demókrata, og reyndist það auðsótt. 

Gagnrýna Maltverja fyrir að gera upp á milli fólks í neyð

218 manns voru um borð í Ocean Viking þegar mest var. Einn var fluttur í land vegna veikinda og á föstudag voru 35 manns, sem bjargað var um borð í Ocean Viking þann sama dag að beiðni yfirvalda á Möltu ferjuð um borð í maltverskt herskip, sem flutti fólkið til Möltu.

Læknar án landamæra gagnrýndu það harðlega, að Möltustjórn skyldi fara þá leið að veita einungis þessum litla hópi skjól en ekki öðrum sem um borð voru, enda neyðin söm og hinna. Sú gagnrýni hreyfði þó ekkert við Maltverjum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV