Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

18 myrtir og 10 konum rænt af Boko Haram

22.07.2018 - 06:48
Mynd með færslu
Grímuklæddir og þungvopnaðir illvirkjar Boko Haram stilla sér upp fyrir myndavélar Mynd: Boko Haram - Twitter
Átján manns féllu í hrottafenginni árás hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í nágrenni Tsjad-vatns á fimmtudaginn og tíu konum var rænt. Frá þessi greinir heimildarmaður AFP-fréttastofunnar innan hersins í Tsjad.

AFP hefur eftir heimildarmanni sínum að árásarmennirnir hafi „skorið átján manns á háls, sært tvo aðra og rænt tíu konum.“

Samtökin Boko Haram hafa undanfarin misseri sótt í sig veðrið og ráðist gegn borgurum og hermönnum í Nígeríu og Tsjad, einkum á svæðinu kringum Tsjad-vatn. Í maí féllu sex, þar á meðal fjórir embættismenn og hermaður, í árás Boko Haram á herstöð á eyju í Tsjad-vatni.

Tsjad, Níger og Kamerún hafa tekið höndum saman með Nígeríu og reyna nú að ráða niðurlögum samtakanna sem lýst hafa yfir hollustu við ISIS.

Her Níger greindi frá því í gær að tíu hryðjuverkamenn úr röðum samtakanna hefðu verið drepnir í kjölfar árásar þeirra á herstöð í suðvesturhluta landsins.