Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

176 bíða eftir sértæku húsnæði í Reykjavík

25.04.2018 - 19:24
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
176 eru á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum í Reykjavík. Heilbrigðisráðherra segir það enn eina ábendingu um að taka þurfi til í heilbrigðiskerfinu, að ungum manni með heilaskaða sé boðin vist á hjúkrunarheimili.

34 ára karlmanni, Einari Óla Sigurðarsyni, sem hlaut alvarlegan heilaskaða fyrir tæpu ári, býðst það eitt að vera vistaður á hjúkrunarheimili. Meðalaldur heimilismanna þar er áttatíu og þrjú ár. Fjallað var um mál hans í fréttum í gær. Aðstandendur hans hafa reynt að finna annað úrræði fyrir Einar Óla, en án árangurs. 

„Mér finnst þetta ekki gott,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. „Og það er auðvitað þannig að hjúkrunarheimili eru fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir aldraða. Og þar eru að megninu til einstaklingar sem eru komnir yfir áttrætt. Þannig að það úrræði hentar ekki og er ekki sérsniðið fyrir einstaklinga eins og þennan sem verið er að ræða í þessari frétt.“

Árið 2016 bjuggu 123 einstaklingar undir 66 ára aldri á hjúkrunarheimilum, en nýrri upplýsingar fengust ekki þegar kallað var eftir þeim í dag. Svandís gerir hins vegar ráð fyrir að í þeirri uppbyggingu hjúkrunarrýma sem fram undan er felist sérsniðin úrræði, til dæmis fyrir yngra fólk. 

„En þetta er enn og aftur ábending um það að það þarf að taka til hendinni í heilbrigðiskerfinu,“ segir Svandís.

„Ekki nægjanlega gott“

Málefni fatlaðs fólks heyra undir sveitarfélögin. Fréttastofa kallaði eftir upplýsingum um fjölda þeirra sem eru á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum hjá Reykjavíkurborg, líkt og Einar Óli þarf á að halda. Þeim sem þurfa slík úrræði er skipt í tvennt - þá sem eiga við geðfötlun að stríða og þá sem búa við þroskahamlanir.

Alls eru 52 geðfatlaðir á biðlista og 124 með þroskahamlanir. Samtals eru því 176 einstaklingar á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum í Reykjavík.

Í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg segir að stefnt sé að því að búið verði að byggja að minnsta kosti hundrað íbúðir sérstaklega fyrir fatlað fólk fyrir árslok 2019. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, viðurkennir hins vegar, að ástandið sé ekki nógu gott.

„Nei, mér finnst að það eigi að vera úrræði fyrir hvern og einn sem tekur mið af hans þörfum, þar á meðal aldri, en auðvitað líka umönnunarþörf. Það getur verið inni á heimilum, það getur kallað á sérhæfð úrræði, og við þurfum sem samfélag að geta mætt þeirri fjölbreytni sem hjúkrunarsjúklingar kalla á. Annars er þetta ekki nægjanlega gott,“ segir Dagur.