Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

170 íslensk nöfn skráð undir Íslandi

10.05.2016 - 08:22
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - RÚV / EFE
Nöfn hátt í 170 einstaklinga eru tengd Íslandi í gagnagrunni sem Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna birtu í gærkvöld, og byggir á upplýsingum um aflandsfélög í Panama-skjölunum. Fleiri nöfn Íslendinga eru þó í grunninum, sem ekki eru skráð undir Íslandi.

Gagnagrunnurinn tekur aðeins til hluta þeirra félaga og einstaklinga sem koma fram í Panama-skjölunum. Þar eru engin frumgögn heldur aðeins grunnupplýsingar um félögin.

Talið er að í gagnagrunninum sé um fjórðungur þeirra íslensku nafna sem fundist hafa í skjölunum öllum. Þar eru mörg þekkt nöfn úr útrásinni fyrir hrun, einnig nöfn ýmissa manna úr hópi fjárfesta, forstjóra og stjórnarmanna í fyrirtækjum, kaupmanna, heildsala og annarra athafnamanna, lögmanna og útgerðarmanna.

Alls finnast hátt í 170 íslensk nöfn einstaklinga þegar Íslandi er flett upp í grunninum, auk nokkurs fjölda íslenskra fyrirtækja. Þar fyrir utan hefur fréttastofa fundið nokkurn hóp Íslendinga sem er skráður í grunninum undir öðrum ríkjum, á borð við Lúxemborg og Bretland.