Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

17 milljónir þjást af hungri í Jemen

epa06331499 A malnourished Yemeni child receives treatment amid worsening malnutrition in the emergency ward of a hospital in Sana'a, Yemen, 15 November 2017. According to reports, more than 50,000 children under the age of 15 in Yemen are at risk of
Um 20 milljónir líða sára neyð í Jemen, þar af eru 11 milljónir á barns aldri Mynd: EPA-EFE - EPA
17 milljónir lifa við hungurmörk í Jemen, eða 60 prósent þjóðarinnar, að því er fram kemur í skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, um alvarlegan fæðuskort í ákveðnum heimshlutum. Skýrslan var kynnt Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Í skýrslunni kemur fram að í heiminum hafi þeim fjölgað sem þjáist af hungri á átakasvæðum. Á átta svæðum í heiminum býr fólk við mikið fæðuóöryggi þar sem að minnsta kosti fjórðungur íbúanna fær ekki nóg að borða. Hungruðum fjölgaði í fyrsta sinn frá aldamótum árið 2016 þegar 815 milljónir þjáðust af hungri. Rúmur helmingur þeirra, 489 milljónir, var á átakasvæðum. Fjölgun átaka er meginástæða þess að hungruðum fjölgar eftir fækkun um áratugaskeið.

Víða alvarlegt ástand

Í Suður-Súdan búa 45 prósent landsmanna við sult, eða um 4,8 milljónir manna. Í skýrslunni kemur fram að í öðrum löndum sé ástandið einnig grafalvarlegt, þar á meðal í Sýrlandi, Líbanon, Mið-afríkulýðveldinu, Úkraínu, Afganistan og Sómalíu.

Ástandið í Súdan fer hratt versnandi

Fram kemur í skýrslunni að í nokkrum öðrum löndum hafi matvælaóöryggi aukist mjög á skömmum tíma. Í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó er talið að tæplega 8 milljónir manna séu í bráðri neyð og í Súdan fer ástandið hratt versnandi. Af þeim sextán heimshlutum sem tilgreindir eru í skýrslunni hefur ástandið aðeins batnað í einu landi, í Sómalíu.