17 börn dáin úr mislingum í Rúmeníu

13.03.2017 - 19:15
Mynd með færslu
Barn með mislinga. Mynd frá samtökum barnalækna í Bandaríkjunum (AAP). Mynd: Kastljós - RÚV
Sautján börn hafa látist af völdum mislinga í Rúmeníu frá því í september í fyrra. Ekkert þeirra var bólusett gegn sjúkdómnum. 1940 smituðust af mislingum í Rúmeníu árið 2016. Árið áður, 2015, voru einungis sjö tilfelli skráð í Rúmeníu. Talið er að ástæðan sé fátækt og andstaða við bólusetningar.

Heilbrigðisráðherra Rúmeníu hvetur fólk til að láta bólusetja sig. Bólusetning sé eina trygga vörnin gegn mislingum. Að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar veitir tvöföld bólusetning við mislingum um 95% örugga vörn gegn smiti. Ráðherrann sagði að aðeins 80% Rúmena fái fyrri bólusetninguna og um 50% þá seinni.

Trúarleiðtogar og fólk sem er áberandi í rúmensku þjóðlífi, hafa farið fyrir baráttu gegn bólusetningum í landinu.

Mislingar eru bráðsmitandi veirusjúkdómur sem veldur hita og útbrotum um allan líkamann. Þeir geta verið hættulegir og jafnvel valdið dauða, sérstaklega hjá börnum sem þjást af vannæringu.

Mislingar eru ein helsta dánarorsök ungra barna í heiminum. Talið er að 134.200 hafi látist úr mislingum árið 2015, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.  

Um 95% dauðsfallanna verða í fátækum ríkjum, aðallega í Afríku og Asíu. Auknar bólusetningar gegn mislingum hafa orðið til þess að dauðsföllum af þeirra völdum hefur fækkað um 79% frá árinu 2000 til 2015. Áður en byrjað var að bólusetja fyrir mislingum að einhverju marki, um 1980, létust um 2,6 milljónir af völdum sjúkdómsins á ári hverju.

Í Evrópu eru smit hins vegar tiltölulega fátíð enda stór hluti Evrópubúa bólusettur. 4.484 smituðust af mislingum í Evrópu í fyrra. Flestir smituðust í Rúmeníu, á Ítalíu (1.020) og í Bretlandi (575). 88% þeirra sem smituðust höfðu ekki fengið neina bólusetningu; 8% aðeins fyrri bólusetningarsprautuna; og 3% báðar.

Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, sagði frá því hve smitandi mislingar geta verið og hvaða alvarlegu afleiðingar sjúkdómurinn getur haft, í viðtali við Kastljós í febrúar 2015.

Mynd: Kastljós / RÚV

Margrét fékk mislinga sem barn, sem og öll börn hennar. Hún segist ekki vita til þess að mislingafaraldur hafi gengið á Íslandi síðan almenn bólusetning barna hófst, árið 1976. Margrét segir að mislingar geti haft mjög alvarlega fylgikvilla, þótt flestir sleppi vel. Þó skipti miklu hvort fólk sé vel nært. Fyrir börn sem eru með eggjahvítuskort eða önnur einkenni vannæringar, geti mislingar verið lífshættulegir.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi