16.000 tonn af varnarefnum

Mynd með færslu
 Mynd:

16.000 tonn af varnarefnum

23.01.2014 - 13:40
Í framhaldi af umfjöllun okkar um öryggi matvæla í gær,tók Stefán Gíslason fyrir notkun varnarefna í Danmörku í pistli sínum sem lesa má hér að neðan.

Varnarefni

Í viðtali Leifs Haukssonar við Helgu Gunnlaugsdóttur, sviðsstjóra hjá Matís, í Sjónmáli í gær kom fram að með nýjum tækjum muni Matís í framtíðinni geta mælt leifar af 300 varnarefnum í stað 63 eins og staðan er í dag. Einhverjum þeirra sem hlustuðu á þetta viðtal hefur ef til vill flogið í hug sama spurning og mér, þ.e.a.s.: Eru virkilega til svona margar gerðir af varnarefnum? Reyndar kom svarið við þessu líka í viðtalinu, því að Helga nefndi að nú væru yfir 1000 mismunandi varnarefni í notkun. Líklega er þar átt við vöruheiti, en virku efnin eru líklega eitthvað færri. Mismunandi framleiðendur markaðssetja nefnilega oft sama virka efnið í mismunandi styrk og mismunandi blöndu undir mismunandi nöfnum.

 Ég viðurkenni að ég hef ekki reynt að leita uppi öll hugsanleg varnarefni til að fá fjölda þeirra á hreint. En til að fá einhverja mynd af þessu gluggaði ég þó mér til gamans í einkar áhugavert rit sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gefur út á hverju ári undir yfirskriftinni Bekæmpelsesmiddelstatistiken. Mitt fyrsta verk í þessum lestri var að telja varnarefnin sem leyft er að nota í dönskum landbúnaði. Reyndar ruglaðist ég fljótlega í talningunni, en get þó upplýst að listinn er upp á 34 og hálfa síðu, og að á hverri síðu eru eitthvað um 20 efni. Ég leyfi mér því að áætla að fjöldi leyfðra efna sé rétt um 700. Og þar erum við bara að tala um Danmörku.

 Þegar betur er rýnt í Bekæmpelsesmiddelstatistiken kemur í ljós að á árinu 2012 voru 5 tiltekin virk efni langvinsælust á varnarefnainnkaupalistum danskra bænda, þ.e.a.s. cypermethrin, prosulfocarb, pendimethalin, alpha-cypermethrin og epoxiconazol – með fyrirvara um framburð. Samtals námu innkaup á þessum fimm efnum rúmlega 70% af heildarvarnarefnainnkaupum ársins. Ég býst við að nöfn efnanna segi hlustendum álíka mikið og mér, en þetta eru í öllu falli framandi nöfn sem auka ekki matarlystina sem slík.

 Nú er von að spurt sé til hvers öll þessi efni séu eiginlega notuð. Ef við höldum okkur við  2012-útgáfuna af Bekæmpelsesmiddelstatistiken þá sést að um það bil helmingur af heildarmagninu er illgresiseyðir, um fjórðungur sveppaeitur og fjórðungur skordýraeitur. Auk þess er þarna lítilræði af vaxtarstýrandi efnum. Á árinu 2012 keyptu Danir samtals 16.826 tonn af varnarefnum sem var 31% aukning frá árinu áður. Reyndar ber að taka aukninguna með fyrirvara, því að á árinu 2012 hömstruðu danskir bændur tiltekin varnarefni til að komast hjá yfirvofandi varnarefnagjaldi. En 16 þúsund tonn er alla vega hellingur.

 Og svo ég haldi mig nú enn við Bekæmpelsesmiddelstatistiken, þá kemur þar fram að á árinu 2012 hafi hver lófastór blettur af dönsku landbúnaðarlandi í hefðbundinni ræktun, þ.e.a.s. ekki í lífrænni ræktun, verið úðaður tæplega fjórum sinnum. Danir eiga sérstakan mælikvarða fyrir þetta, sem þeir reikna út á hverju ári og kalla behandlingshyppighed eða bara BH. BH fyrir árið 2012 var 3,96, svo allrar nákvæmni sé gætt.

 Nú er það alls ekki svo að Danir noti eitthvað meira af varnarefnum en aðrar þjóðir á svipaðri breiddargráðu. Þeir eru bara með svo góða tölfræði að auðvelt er að nota þá sem dæmi. Líklegt má telja að mun meira sé notað af efnum af þessu tagi sunnar í Evrópu. Einhvern tímann las ég einhvers staðar að á árinu 2007 hefði 220.000 tonnum af varnarefnum verið dreift yfir evrópskt landbúnaðarland, þar af um 15% í vínberjarækt. Ef við lítum okkur nær, kemur hins vegar í ljós að sáralítið af efnum af þessu tagi er notað í íslenskum landbúnaði, sem ræðst væntanlega af því að hér eru lífsskilyrði fyrir alls konar óværu erfiðari en sunnar í álfunni. Tal okkar um hreinleika íslensks landbúnaðar er því kannski ekki eintóm þjóðremba þegar varnarefni eiga í hlut.

 Fyrst minnst er á vínberjarækt er ekki úr vegi að rifja upp rannsókn sem Landbúnaðarháskóli Svíþjóðar (SLU) gerði á síðasta ári fyrir sjónvarpsþáttinn Kalla fakta á sjónvarpsstöðinni TV4. Í þeirri rannsókn fundust varnarefnaleifar í fjórum af tíu mest seldu tegundum kassavíns í Svíþjóð. Evrópusambandið hefur ekki sett nein viðmiðunargildi fyrir leyfileg hámörk varnarefna í víni, en styrkur efnanna í umræddri rannsókn var allt að 55 sinnum hærri en leyft er í drykkjarvatni.

 Nú er eðlilegt að spurt sé hvort eða hvernig varnarefni sem notuð eru í landbúnaði geti skaðað heilsu okkar. Því er til að svara að líklega skaða efnin okkur ekki neitt, nema leifar af þeim leynist í matnum okkar – og komist þannig áleiðis ofan í maga eða þá í gegnum húð eða öndunarfæri þegar við handfjötlum matinn. En þá geta áhrifin líka verið margvísleg. Mörg þessara efna geta t.d. truflað hormónastarfsemi líkamans og haft áhrif á frjósemi. Sem dæmi um hugsanleg skaðleg áhrif má nefna að niðurstöður vísindamanna við Tækniháskóla Danmerkur, sem birtar voru árið 2012, bentu til þess að drengir sem hafa fengið í sig varnarefni á fósturskeiði séu líklegri en aðrir til að glíma við námsörðugleika og skerta sæðisframleiðslu síðar á lífsleiðinni, jafnvel þótt styrkur varnarefnanna hafi verið innan viðmiðunarmarka fyrir hvert efni um sig. Þarna koma við sögu hin svokölluðu „kokkteiláhrif“, þ.e.a.s. samanlögð áhrif sem fólk verður fyrir þegar það umgengst fleiri en eitt varasamt efni samtímis, jafnvel þótt hvert efni um sig sé undir hættumörkum.

 Nú, svo er líka allt í lagi að hugsa stundum um það að heilsa okkar er ekki eina heilsan sem skiptir máli. Ég vitna í þessu sambandi oft til samtals sem ég átti undir lok síðustu aldar við skólabróður minn frá Costa Rica, Jorge Alberto Vieto Piñeres. Hann benti mér á að varnarefnin sem bananarnir sem ég kaupi frá Costa Rica eru baðaðir upp úr til að þeir skemmist ekki í flutningnum til Íslands verði að mestu leyti eftir í vatninu þeirra. Eitthvað af þeim fer reyndar með áleiðis hingað norður eftir, en brotnar að miklu leyti niður á leiðinni. Ef eitthvað er enn eftir þegar ég fæ bananann er það líklega bara utan á hýðinu, sem ég hendi hvort sem er og þar fyrir innan er hollur og ljúffengur banani sem spillir heilsu minni ekki neitt. Það er bara Jorge og þeir þarna suðurfrá sem sitja í súpunni.

 Enn önnur hlið á málinu eru áhrif varnarefnanna á náttúruna á þeim svæðum þar sem efnin eru notuð. Nú telja menn til dæmis að varnarefni, og þá sérstaklega virka efnið neónikótínoíð, eigi stóran þátt í hnignun býflugnastofna austan hafs og vestan. Þetta kemur hart niður á okkur mannfólkinu, jafnvel þó að við fáum efnið ekki í okkur sjálf, einfaldlega vegna þess að býflugur veita okkur, alveg ókeypis, þjónustu sem annars myndi kosta milljarða á milljarða ofan. Eftir miklar umræður greip Evrópusambandið til þess ráðs fyrir tæpu ári að banna efni af þessu tagi, þrátt fyrir hávær mótvæli varnarefnaiðnaðarins sem missti þarna mikilvæga tekjulind.

 Einfaldasta leiðin til að forðast varnarefni er að kaupa lífrænt vottaðar matvörur, því að í slíkri ræktun er notkun varnarefna bönnuð. Og fyrst ég nefndi samtal mitt við Jorge er ekki úr vegi að rifja upp uppgötvun sem starfsmenn dýragarðsins í Kaupmannahöfn gerðu fyrir rúmlega 10 árum síðan. Þeir tóku sem sagt eftir því að simpansar í dýragarðinum tóku alltaf lífrænt vottaða banana fram yfir aðra banana þegar þeir höfðu val. Og auk heldur átu þeir lífrænu bananana með hýðinu, en ekki hina.