16.000 km ganga gegn kynferðisofbeldi

Mynd: Matthew McVarish / RIFF

16.000 km ganga gegn kynferðisofbeldi

06.10.2016 - 16:19

Höfundar

Skoski leikarinn, leikskáldið, leikstjórinn og aðgerðasinninn Matthew McVarish verður meðal frummælenda á Barnaverndarþingi Barnaverndarstofu sem fram fer á á Grand hóteli í dag. McVarish og bræður hans voru misnotaðir kynferðislega af frænda þeirra þegar þeir voru börn og samdi hann leikrit um þá hræðilegu lífsreynslu sem nefnist To Kill a Kelpie. Hann gerði síðar kvikmynd eftir leikritinu sem sýnd verður á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í Bíó Paradís, í dag kl. 17.30. 

McVarish segir í samtali við Víðsjá að hann hafi ekki viljað tala um glæpi frænda síns fyrr en hann var kominn á fullorðinsaldur. Eftir að leikritið var frumsýnt og glæpirnir afhjúpaðir var frændinn dreginn fyrir dómstóla og dæmdur til fangelsisvistar. Kvikmyndin hefur verið sýnd víða og gekk McVarish milli landa Evrópusambandsins til að vekja athygli á baráttu sinni og fá fólk til að tala um kynferðisbrot gegn börnum. Alls gekk hann um 16.000 kílómetra, hitti ráðamenn hinna ýmsu landa og m.a. Frans páfa.

McVarish segir gönguna hafa verið góða leið til að ná athygli fjölmiðla sem fjallað hafi um hana og baráttu McVarish sem m.a. fólst í því að láta afnema fyrningarlög sem koma í veg fyrir að fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis geti leitað réttar síns löngu eftir að brotin voru framin. 

7. okt 2016: fréttin hefur verið uppfærð