Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

16 langreyðar veiddar

24.06.2014 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Sextán langreyðar hafa veiðst við Íslandsstrendur á yfirstandandi veiðitímabili. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, gefur lítið fyrir tal um lélega sölu á hvalkjöti í Japan. Hann stæði ekki í hvalveiðum ef ekki væri hægt að selja afurðirnar.

Alls hafa veiðst 16 langreyðar af 154 hvala kvóta, en megnið af kjötinu er selt til Japan. Því mótmæla Grænfriðungar og vísa til þess að hvalveiðar í atvinnuskyni séu bannaðar samkvæmt alþjóðalögum. Yfirlýst markmið hvalveiða við Ísland er hins vegar veiðar í vísindaskyni. 
Hvalveiðar Íslendinga komu í veg fyrir að íslenskum ráðamönnum yrði boðið á áttatíu ríkja alþjóðlega hafráðstefnu sem Bandaríkin stóðu fyrir vestanhafs í síðustu viku. 

Þá segja grænfriðungar og aðrir andstæðingar hvalveiða að sala á kjötinu gangi hægt í Japan. Forstjóri Hvals neitar því. Ekki sé staðið í svona rekstri nema hægt sé að selja afurðirnar. Það sé hins vegar snúnara að flytja hvalkjötið til Japan en áður því skipafélög vilji ekki flytja kjötið vegna mótmæla andstæðinga hvalveiða. Kjötið verði nú flutt beint til Japan með skipum sem ekki stoppa á leiðinni.  

Kristján segir að hvalveiðitímabilið standi yfir frá byrjun júní og fram í lok september eins og um árabil. Það fari hins vegar eftir veðri og aðstæðum hvort það náist að klára kvótann hverju sinni. Í fyrra veiddust hundrað þrjátíu og fjórar langreyðar.