Mun færri eru ánægðir með störf stjórnarandstöðunnar á Alþingi nú en í ársbyrjun. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Fylgi ríkisstjórnarinnar hefur minnkað mjög á þessu ári og fór lægst í 30% í síðasta mánuði. Ríkisstjórnin sækir nú á og mælist nú með 36% prósenta fylgi. Það er næstminnsta fylgið frá kosningum.
En stjórnarandstaðan ríður heldur ekki feitum hesti frá þessari könnun. 16% aðspurðra eru ánægð með störf hennar og 60% eru óánægð. Stjórnarandstaðan naut meiri vinsælda í síðustu viðhorfskönnun, sem gerð var í mars. Þá voru 22% ánægð með störf stjórnarandstöðunnar og rúmur helmingur óánægður.